Ingvi Rúnar Einarsson, fyrrverandi skipstjóri og núverandi eldri borgari, skrifar áhugaverða grein í Moggann í dag. Ingvi fjallar um kjör eldri borgara. Meðal annars fjallar hann um skattlagningu á eldri borgara:
„Skoðum reglur almenna tryggingaþáttarins. Við greiðslur ellilauna eru þær skattlagðar og skertar á ýmsa vegu.
1. Skattlagning. Heildargreiðslur úr lífeyrissjóðum eru skattlagðar. Sem og fjármagnstekjur, sem eru vaxtatekjur og söluhagnaður o.s.frv.
2. Skattlagning. TR skerðir greiðslur vegna fjármagnstekna.
3. Skattlagning. Greiðslur frá TR eru skattlagðar.
4. Skattlagning. Eftirstöðvar, sem koma svo í hendur aldraða, eru skattlagðar sem vsk. við eyðslu.
Ath. Það má bæta við einni skattlagningu. Árið 1986 þegar staðgreiðsla var sett á voru inngreiðslur í lífeyrissjóði skattlagðar. Þessu var breytt 1993 og hætt að skattleggja inngreiðslurnar. Í sjö ár höfðu launþegar greitt þann skatt. Þessi skattlagning hefur ekki verið bætt. (Miðað við inngreiðslur í Lífeyrissjóð sjómanna á þessum tíma voru skattgreiðslur þessar 1,4 milljarðar á þeirra tíma gengi.)
Eitt misræmi við útgreiðslur úr lífeyrissjóðum er greiddur tekjuskattur. Staðreyndin er sú að stór hluti af útgreiðslum lífeyrissjóðanna er fjármagnstekjur og því ætti að skattleggja þær sem slíkar.
Er það nokkuð óeðlilegt að margir aldraðir lifi í fátækt?“