Margfalt fleiri fyrirspurnir eftir kosningar
Þetta er ekki vinnandi vegur.
Fyrirspurnir borgarfulltrúa eru margfalt fleiri nú en fyrir kosningarnar í sumar. Meirihlutinn hefur gripið til ráðs sem fellur minnihlutanum illa í geð.
„Það er mikilvægt að vanda til verka og taka upplýstar ákvarðanir þegar tillögur koma til afgreiðslu. Ábyrgð borgarfulltrúa er mikil í þeim efnum,“ segja borgarráðsfulltrúar meirihlutans.
„Flokkur fólksins gerir þá kröfu að vikið verði umsvifalaust frá þeirri einhliða ákvörðun meirihlutans að setja mörg svör/mál frá flokkum minnihlutans í eitt skjal hvort heldur er í dagskrá eða í fundargerð. Í titli skjalsins kemur ekki fram hvaða svör eru í skjalinu sem getur verið tugir blaðsíðna. Sé ætlunin að leita að einu svari eða máli þarf viðkomandi í fyrsta lagi að vita að það er í skjalinu og síðan leita að því í margra blaðsíðna skjali. Þetta er ekki vinnandi vegur,“ bókaði Kolbrún Baldursdóttir á borgarráðsfundi í dag.
„Það er til skammar hvernig meirihlutinn í borgarráði hagar sér. Dagskrárvaldið er hiklaust tekið af minnihlutanum ef óskað er eftir að ræða óþægileg mál,“ bókaði Vigdís Hauksdóttir.
Hún klikkti út með þessu: „Einnig er það ítrekað að ekki var orðið við ósk minni um að fyrirspurnum sem hafa legið lengi inn í kerfinu og ekki verið sinnt eins og t.d. fyrirspurn mín frá 23. ágúst sl. sem er svohljóðandi: „Óskað er upplýsinga um hversu margir starfslokasamningar hafa verið gerðir sl. 8 ár við starfsmenn borgarinnar og hvað þeir hafa kostað? Óskað er eftir sundurliðun eftir árum og starfsheitum.““