- Advertisement -

„Margbrotið á fötluðu fólki í Reykjavík“

Það er átakanlegt að sjá að það er verið að byggja út um allt til að mæta þörfum ólíkra hópa en það er ekki hægt að byggja nóg fyrir fatlaða.

Kolbrún Baldursdóttir: Það bíða 137 einstaklingar eftir sértæku húsnæði.

„Þegar kemur að sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk þá hefur verið margbrotið á fötluðum einstaklingum í Reykjavík og með því brotið gegn samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það bíða 137 einstaklingar eftir sértæku húsnæði,“ bókaði Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins.

„Fyrsta heildstæða uppbyggingaráætlun borgarinnar í sértækum búsetuúrræðum var samþykkt í velferðarráði þann 30. maí árið 2017 í kjölfar ítarlegrar þarfagreiningar. Nú er ljóst að staða á biðlistum er misjöfn eftir þjónustuþáttum og því er eðlilegt að breyta gildandi áætlunum til að mæta núverandi þörf. Fulltrúarnir fagna einnig áherslu á stuðning til sjálfstæðrar búsetu og færanleg búsetuteymi. Einnig fagna fulltrúarnir því að fatlað fólk og aðstandendur þeirra treysti í meiri mæli á áreiðanleika stuðningsþjónustu sem gerir fólki kleift að búa sjálfstætt í eigin íbúð með stuðningi, enda er það í samræmi við gildandi stefnumótun borgarinnar og samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks,“ bókuðu meirihlutaflokkanna.

Dæmi eru um að fólk hafi orðið öryrkjar vegna streituálags og langvarandi þreytu.

„Tillaga sviðsstjóra um breytingu á uppbyggingaráætlun sértækra húsnæðisúrræða er góð eins langt og hún nær. Það eru mikil vonbrigði hversu lítið hefur verið byggt fyrir fólk með fötlun. Dæmi eru um að fatlaður einstaklingur sé kominn langt á fertugsaldur þegar hann fær loksins húsnæði. Foreldrar fatlaðra fullorðinna einstaklinga hafa stundum þurft að hætta vinnu. Dæmi eru um að fólk hafi orðið öryrkjar vegna streituálags og langvarandi þreytu,“ sagði Kolbrún og bætti við:

„Nýlega féll úrskurður í úrskurðarnefnd velferðarmála í máli fatlaðs ungs manns sem beðið hefur árum saman á biðlista. Í úrskurðinum segir að borgin skuli hraða afgreiðslu málsins og taka ákvörðun um úthlutun viðeigandi húsnæðis svo fljótt sem auðið er. Borgin veitir oft misvísandi upplýsingar. Haldnir eru kannski fjöldi funda, símtöl og póstsamskipti. En síðan ekki söguna meir. Það er átakanlegt að sjá að það er verið að byggja út um allt til að mæta þörfum ólíkra hópa en það er ekki hægt að byggja nóg fyrir fatlaða.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: