Marfir fundir með bankamönnum
Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður, segist undrandi á fréttaflutningi Ríkisútvarpsins.
Umræðan „Ég, Bjarni, Ólöf og Pétur, sem öll vorum þingmenn Sjálfstæðisflokksins, vorum skipuð í starfshóp þingflokksins sem átti að eiga samskipti við fjármálafyrirtækin, stór jafnt sem smá. Við áttum fundi með þeim flestum eða öllum og vorum í reglulegu sambandi við fulltrúa þeirra. Ekki bara fulltrúa Glitnis, eins halda mætti miðað við umfjöllun RÚV,“ segir Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook. Færsla Sigurðar Kára er hér að neðan.
„Mér var brugðið þegar ég horfði á fyrstu frétt Ríkissjónvarpsins í gær, laugardag.
Viku fyrir kjördag var umfjöllunarefnið fréttastofu RÚV samskipti Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, við Glitni fyrir og eftir hrun. Umfjöllunin RÚV var unnin upp úr stolnum gögnum frá Glitni, þeim sömu og sýslumaður lagði fyrir skömmu lögbann við að aðrir innlendir fjölmiðlar birtu.
Að RÚV vinni fréttir úr stolnum gögnum sem lögbann hefur verið lagt við að nýtt séu til fréttaskrifa er eitt. Annað er tilgangur þessarar umfjöllunar ríkisfréttastofunnar, viku fyrir kosningar, sem engum dylst hver er.
Í seinni hluta umfjöllunar RÚV segir að gögnin sýni „áður óþekkt samskipti þingmanna Sjálfstæðisflokksins við starfsmenn Glitnis í kjölfar hrunsins. Meðal gagna sem þar koma fram eru tillögur þingmanna að lagafrumvarpi um meðferð innstæðna íslenskra og erlendra viðskiptavina bankans.“ Kemur fram að ég hafi ásamt Bjarna Benediktssyni og félögum okkar, Ólöfu Nordal og Pétri H. Blöndal, heitin, átt í þessum samskiptum. Umfjöllun RÚV er þess eðlis að samskipti okkar við bankann hafi verið óeðlileg og að Glitnir og/eða viðskiptavinir bankans hafi fengið sérmeðferð hjá okkur umfram aðra, sérstaklega hjá Bjarna.
Af þessari umfjöllun RÚV að dæma virðist sem fréttamaðurinn, Aðalsteinn Kjartansson, og fréttastjóri hans hafi gleymt því hvernig ástandið í íslenskum stjórnmálum og fjármálalífi var vikurnar fyrir og eftir hrunið 2008 eða látið hjá líða að kynna sér með hvaða hætti ráðherrar og þingmenn reyndu á þeim tíma að glíma við það ástand sem skapast hafði.
Geir H. Haarde var á þessum tíma forsætisráðherra. Hann hafði skipað sérstaka krísustjórn í forsætisráðuneytinu til þess að stýra aðgerðum stjórnvalda með ríkisstjórninni. Í þeim hópi voru meðal annars norskur sérfræðingur, Ásmundur Stefánsson, fyrrverandi ríkissáttasemjari, og fleiri.
Á þessum tíma ríkti eðlilega mikil taugaveiklun í öllu fjármálakerfinu. Stjórnendur og starfsmenn banka, sparisjóða, lífeyris reyndu stöðugt að ná sambandi við stjórnvöld. Geir gat eðlilega ekki sinnt öllum slíkum beiðnum. Hann skipti því þingflokknum upp í hópa sem hver og einn hafði það hlutverk að eiga samskipti við þá sem þurftu að fá upplýsingar eða aðstoð eða þá sem vildu koma á framfæri hugmyndum og tillögum við stjórnvöld. Þetta getur Geir sjálfur staðfest, en einnig Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem var varaformaður Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma.
Ég, Bjarni, Ólöf og Pétur, sem öll vorum þingmenn Sjálfstæðisflokksins, vorum skipuð í starfshóp þingflokksins sem átti að eiga samskipti við fjármálafyrirtækin, stór jafnt sem smá. Við áttum fundi með þeim flestum eða öllum og vorum í reglulegu sambandi við fulltrúa þeirra. Ekki bara fulltrúa Glitnis, eins halda mætti miðað við umfjöllun RÚV. Við vorum líka í reglulegum samskiptum við fulltrúa annarra banka, fjölda sparisjóða, sparisjóðabanka, lífeyrissjóða og eiginlega alla sem störfuðu á fjármálamarkaði með einum eða öðrum hætti sem vildu við okkur tala eða áttu við okkur erindi, sem við reyndum að sinna eða koma á framfæri við ráðherra og ráðuneyti.
Í þeim samskiptum voru lagðar fram tillögur og hugmyndir ræddar, bæði okkar eigin og þeirra sjálfra, sem allar höfðu það að markmiði að bjarga verðmætum almennings við þessar erfiðu aðstæður. Ætli flestar tillögurnar hafi ekki snúið að sparisjóðunum sem þarna riðuðu til falls.
Fyrirsvarsmönnum sparisjóðanna fannst þeir utanveltu á þessum tíma og töldu að hagsmunir þeirra og viðskiptavina þeirra fengju ekki næga athygli í þeim björgunaraðgerðum sem unnið var að. Þeim reyndum við að sinna, eins og öðrum. Séu tölvupóstar mínir meðal hinna stolnu gagna má örugglega finna þar samskipti mín við fulltrúa sparisjóða, tillögur og hugmyndir sem höfðu það að markmiði að bjarga hagsmunum sjóðsfélaga, ýmist í formi lagafrumvarpa eða með öðrum hætti.
Um eina slíka tillögu er fjallað í umfjöllun RÚV. Það var frumvarp sem við unnum að í samstarfi við lögmenn úti í bæ sem vildu leggja sitt af mörkum til að verja hagsmuni almennings í landinu. VIð áttum í samskiptum við starfsmenn Glitnis, og ef ég man rétt mun fleiri, vegna þeirrar frumvarpsgerðar.
Í umfjöllun RÚV var reynt að gera þau samskipti tortryggileg, líkt og við, og þá einkum Bjarni Benediktsson, værum að ganga erinda Glitnis í þeim samskiptum.
Ekkert er fjær sanni.
Umfjöllun RÚV dregur upp kolranga mynd af þeim atburðum sem þarna áttu sér stað og þeim tilgangi sem þeim var ætlað að þjóna.
Sannleikurinn er sá að við sem nafngreind erum í fréttinni vorum að vinna að frumvarpi til breytinga á skuldajöfnunarreglum gjaldþrotaskiptalaga. Tilgangurinn með þeim breytingum var ekki síst sá að koma í veg fyrir að kröfur lífeyrissjóðanna, þ.e. gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir lífeyrisþega í landinu, myndu renna inn í þrotabú gömlu bankanna og þar með enda í höndum erlendra kröfuhafa.
Við vorum, með öðrum orðum, í harðri hagsmunagæslu fyrir almenning í landinu gegn erlendum kröfuhöfum. Við vorum að reyna að bjarga verðmætum. Við vorum ekki í hagsmunagæslu fyrir Glitni eins og halda mætti og áttum ekki í óeðlilegum samskiptum við starfsmenn þess banka.
Af þeirri baráttu vorum við stolt, ég, Bjarni, Ólöf og Pétur.
Í ljósi alls þessa er í meira lagi einkennilegt fyrir mig, sem var hluti af þessari atburðarás og beinn þáttakandi í henni, að horfa upp á fréttaflutning RUV nú, þar sem barátta okkar fyrir almannahagsmunum og viðleitni til að bjarga verðmætum er látin líta út sem sérhagsmunagæsla fyrir Glitni banka þar sem reynt er að ósekju að baða þátttöku Bjarna Benediktssonar sama spillingarljóma sem þeir fjölmiðlar sem nú sæta lögbanni hafa reynt að gera um langt skeið.
Það er dapurlegt að horfa upp á fréttastofu Ríkisútvarpsins vera þátttakanda í slíkri vegferð, viku fyrir alþingiskosningar.“