Íslenskir ráðamenn brjóta mannréttindalög á hverjum degi.
Gunnar Waage, fyrrverandi ritstjóri Sandkassans, skrifar:
Því miður þegar litið er yfir kommentakerfin þessa dagana þá virðist þessi andúð á flóttafólki vera að koma til baka. Sandkassinn náði að berja þetta niður með aðferðum sem ekki stóð til að beita til lengri tíma. Það var einfaldlega allt of agressíf nálgun, en hún virkaði. Nú hafa mótmæli hælisleitenda verið að taka á sig nýjar myndir og ég er ekki frá því að það þyrfti að aðstoða þá við kröfugerð þeirra.
Það er t.d. vanhugsað að fara fram á að Útlendingastofnun hætti að starfa samkvæmt Dyflinarreglugerðinni, Þess í stað ætti að setja fram þá kröfu að ÚTL starfi samkvæmt Dyflinarreglugerðinni. ÚTL brýtur Dyflinarreglugerðina með framkvæmd sinni á greiningu á því hvaða mál skuli tekin til efnislegrar meðferðar. Þetta er brot á Dyflinarreglugerðinni og brot á Flóttamannasamningi UN. Fjöldabrottvísanir eru ólögmætar og það má leiða að því að sérrreglur sem settar hafa verið hér, ali af sér allt að því kerfisbundar ólögmætar brottvísanir.
Því miður þá hefur ríkt þegjandi samkomulag allra flokka í gegn um tíðina hér á landi, um flóttamannamál. Um leið og gagnrýnin þagnar, þá fara stjórnvöld í sama farið. Síðan er alltaf farið í að halda því fram að dómar frá Mannréttindadómstólum séu ekki bindandi hér á landi. Að sjálfsögðu eru þeir bindandi þótt ekki komi til beinna refsinga við mannréttindabrotum hér á landi. Afleiðingar við brotum á alþjóðalögum eru fyrst og fremst pólitískar ríkja í milli. Vandinn er að til að komi til viðskiptaþvinganna sem dæmi, þá þurfa brotin að vera svo massíf og alvarleg, að lítil hætta er á að Ísland þurfi að þola slíkar aðgerðir nágrannaríkja.
En við brjótum á fólki, í seinna stríði sendum við gyðinga frá Íslandi og neituðum þeim um hæli. Í þá daga var kannski handfylli ráðamanna sem tóku þessar ákvarðanir og almenningur lærði ekki um þessi illvirki Íslenskra ráðamanna fyrr en mörgum árum seinna.
Í dag brjótum við á hælisleitendum í allra augsýn, rétt eins og Donald Trump fremur glæpi í allra augsýn, þá eru Íslenskir ráðamenn að brjóta mannréttindalög á hælisleitendum á hverjum degi og við vitum það, sjáum það, og erum því öll sek.