- Advertisement -

Mannlífið: 500 kílómetrar og fimmtán kíló

- hef náð háleitum markmiðum og ætla að halda áfram.

Með fatlann og spelkuna.

Um áramót ákvað ég að helga sjálfum mér janúarmánuð. Ég tók að ganga alla daga og ég gekk og gekk. Takmarkið var að eflast og léttast. Það tókst með ágætum.

Síðan hef ég haldið áfram og sett mér ný og meira krefjandi markmið. Að endingu setti ég mér það að í lok þessarar viku yrði ég búinn að léttast um 15 kíló frá áramótum og ganga 500 kílómetrar. Báðum þessum markmiðum hef ég náð.

Er semsagt búinn að ganga 500 kílómetra frá áramótum og er fimmtán kílóum léttari en ég var þá, reyndar eru kílóin orðin sextán.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta hefur verið talsverð vinna. Samtals hef ég verið gangandi í meira nítíu klukkustundir.

Spelkan

Ég þarf að ganga með spelku á hægra hné. Í læknaumsögninni segir að brjóskið í hnénu sé uppurið. Sem gerir að beinin snertast, bein í bein. Spelkan virkar einsog loftdempari, þannig að bein snertast ekki og sársaukinn nánast fer. Án hennar gæti ég ekki gengið mikið.

Fatlinn

Fatlinn er mér mikil nauðsyn. Þannig er að fyrir rétt um tveimur og hálfu ári slasaðist ég nokkuð. Lunga féll sama, fimm rifbein brotnuðu og herðablað. Afleiðingarnar eru vondar. Taugar eru mikið skemmdar sem hefur þær afleiðingar að hægri handleggurinn er máttlítill og til takmarkaðs gagns. Hann er stundum, reyndar oft, svo þungur að það tekur á að hafa hann hangandi frá öxlinni. Því er fatlinn mikil nauðsyn, dreifir þunganum. Án fatlans gengi ég ekki mikið.

Áfram veginn

Þó ég hafi lést nokkuð er mikið eftir. Það er mikill munur að vera fimmtán, reyndar sextán, kílóum léttari. En það er bara ekki nóg. Ég veit að þetta er hægt. Til þess þarf þó tvennt, vilja og kraft. Nú hef ég hvorutveggja. Allt hófst þetta á einu skrefi.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: