„Nú stendur yfir á Alþingi önnur umræða fjárlaga fyrir árið 2019. Þetta er annað fjárlagafrumvarpið sem lagt er fram af núverandi ríkisstjórn. Það sýnir svart á hvítu að það er enginn vilji til að rétta hlut þeirra sem búa við bágustu kjörin. Manngerð fátæktargildran sem heldur okkar minnstu bræðrum og systrum í heljargreipum, rammgerist einungis í meðförum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur,“ þannig hefst Moggagrein sem Inga Sæland skrifar.
Inga stappar niður fæti og er ósátt við gang mála.
Lítilsvirðingin er algjör
„Það sem einkennir framgöngu ríkisstjórnarinnar er sú skefjalausa hagsmunagæsla sem hún rekur. Forgangsröðun fjármuna er bæði ósanngjörn og röng. Lítilsvirðingin gagnvart þeim sem minni máttar eru, er algjör.
Ég er ekki að kalla eftir auknum fjárútlátum ríkissjóðs, einungis að óska eftir eðlilegri forgangsröðun á sameiginlegum fjármunum okkar í þágu fólksins. Að sjálfsögðu með styrkri og ábyrgri hagstjórn. Hún er óumdeilt til farsældar fyrir okkur öll.“
Um kolranga forgangsröðun
„Lækka á bankaskattinn um sjö milljarða króna. En þeir eru í engum vanda.
Lækka á veiðigjöldin um 4,3 milljarða króna. Undarlegt á þessum tímapunkti þegar krónan hefur lækkað um rétt tæp fimmtán prósent og aukið útflutningsverðmæti útgerðarinnar svo um munar í leiðinni. Það rétta væri að afkomutengja hverja og eina útgerð fyrir sig þannig að greiðslan yrði sanngjarnari fyrir alla.
Lækka á neðra skattþrepið um eitt prósent kostar ríkissjóð fjórtán milljarða en gefur þeim efnaminnstu það lítið í aðra hönd að það dugar tæplega fyrir hálfri pizzu.
Kostnaður við það að flytja heilbrigðisráðuneytið í annað húsnæði í stað þess að nýta núverandi húsakost er a.m.k. 212 milljónir króna.
4 – 500 milljónir til bókaútgefenda. Ég segi frábært en er ekki eitthvað enn meira aðkallandi eins og að geta upprætt biðlista á Vogi og barist af afli gegn þeirri dauðans alvöru sem þegar hefur á árinu banað 42 einstaklingum á aldrinum 18-40 ára.
Sækjum 50 milljarða árlega í lífeyrissjóðina
Þetta er ekki flókið, einungis að afnema undanþágu lífeyrissjóða til að halda eftir hjá sér staðgreiðslunni af því sem við greiðum til þeirra. Þeir s.s. borga ekki staðgreiðsluna sem þegar hefur verið tekin af okkur, fyrr en við förum að taka út lífeyrisréttindin, þ.e.a.s. þau okkar sem lifa það lengi. Mismunurinn á því hvort lífeyrissjóðirnir greiða við inngreiðslu í þá eða við útborgun úr þeim, eru heilir fimmtíu milljarðar króna á ári.
Lokaorð
Afnemum undanþágu lífeyrissjóðanna og forgangsröðum fjármunum okkar öðruvísi. Eins og sést hér að ofan er ég þegar komin með 76 milljarða króna sem ég vildi sjá fara til þeirra sem mest þurfa á að halda. Ég segi það aldrei nógu oft: „Burt með biðlista, burt með skerðingar og burt með þjóðarskömmina fátækt.“
Greinin er birt hér nánast óbreytt. Það var erfitt að stytta greinina svo það var látið ógert.