Sýning á nýjustu verkum systranna Söru og Svanhildar Vilbergsdætra opnar í Gerðubergi laugardaginn 24. janúar kl. 15. Systurnar sem eru listmálarar vinna verk sín algjörlega saman frá hugmynd að fullkláruðu verki
Sara og Svanhildur eru fæddar á Ísafirði 1956 og 1964 og útskrifaðar úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1985 og 1994. Þær hafa lengi unnið að myndlist hvor í sínu lagi en á Menningarnótt 2010 hófu þær fyrir tilviljun sameiginlegt ferðalag um hvunndags- og ævintýralönd, með liti og striga í farteskinu. Á ferðalaginu sem enn stendur, og allsendis óvíst hvenær lýkur, hafa þær málað ötullega og haldið nokkrar málverkasýningar. Fyrsta sýning þeirra „Systrasögur“ í Listasafni ASÍ árið 2012 fékk mikla athygli og metaðsókn.
Segir á vef Gerðubergs að þrátt fyrir að vera systur séu þær Sara og Svanhildur töluvert ólíkar, en fyrir einhverja töfra eða galdur vinni þær saman sem ein manneskja þegar kemur að hugmyndavinnu, undirbúningi og framkvæmd sameiginlegra málverka sinna. Verk þeirra eru að stórum hluta til sjálfsmyndir sem sýna þær á raunsæjan hátt í hversdagslegum aðstæðum, en vísa um leið út og suður í ævintýraheima og listasöguna.
Á sýningunni í Gerðubergi takast þær á við sammannlegar hremmingar og stundir milli þeirra stríða. Umfjöllunarefnið í myndunum er reynsluheimur systranna sem á erindi við fleiri en þær sjálfar, þar sem þær skoða einnig táknmyndir úr listasögunni og dægurmenningu og setja í samhengi við daglegt amstur með tilheyrandi karnivali, tragedíum og sólböðum.
Sýningin stendur til 29. mars og er opin alla virka daga frá 9-18 og um helgar frá 13-16. Ókeypis aðgangur.
Heimasíða þeirra: www.duosisters.com