Fréttir

Máltíðin í þinghúsinu kostar 680 krónur

- utanaðkomandi borga tvöfalt það verð, eða 1.350 krónur.

By Miðjan

November 19, 2018

Matseðill Alþingis þessa vikuna.

Þingmenn og starfsfólk Alþingis borga 680 krónur fyrir máltíð í þinghúsinu. Utanaðkomandi borga 1.250 krónur fyrir máltíðina.

Í svari Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis til Miðjunnar, segir að ríkið greiðir kostnað við rekstur mötuneytis, það er gert samkvæmt kjarasamningi (grein 3.4.1.).

Starfsmenn greiða hins vegar fyrir hráefniskostnað. Alþingismenn falla undir sömu reglu og starfsmenn, þ.e. greiða fyrir hráefniskostnað. Aðrir ríkisstarfsmenn, sem snæða tilfallandi í mötuneyti Alþingis, eins og starfsmenn ráðuneyta sem vegna starfa sinna eru á Alþingissvæðinu á matmálstíma, greiða sama verð og starfsmenn Alþingis. Verðið er 680 kr. fyrir máltíðina.

Aðrir utanaðkomandi, t.a.m. verktakar sem eru tilfallandi að störfum í Alþingi, mega snæða í mötuneyti Alþingis ef þeir kjósa en greiða þá 1350 kr. fyrir máltíðina. Verð á máltíð fyrir starfsmenn Alþingis og þingmenn er endurskoðað um hver áramót í samræmi við breytingar á verðlagi.

„Það skal áréttað að Alþingi greiðir launakostnað mötuneytis en starfsmenn, alþingismenn o.fl. greiða hráefniskostnað svo sem venja mun verra í flestum mötuneytum opinberra stofnanna sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni,“ segir jafnframt í svar Helga Bernódusson.