Fréttir

Málsmeðferð forsætisnefndar var hvítþvottur

By Miðjan

November 26, 2018

Björn Leví skrifar: Hversu heppilegt er að „innleiðingu“ reglna um notkun bílaleigubíla lauk einmitt þegar Ásmundur var kominn á bílaleigubíl … eftir að það var búið að vekja athygli á brotinu? Hvers vegna þarf frekari lög og reglur um endurgreiðslur í kosningabaráttu þegar það er augljóst að kosningabarátta, að sækja um starf sem þingmaður, er augljóslega ekki eitthvað sem þingmannstarfið krefst?

Ábending mín snýst m.a. um endurgreiðslur vegna kosningabaráttu. Það þýðir augljóslega að allir sem hafa fengið slíkar endurgreiðslur eru ófærir um að dæma í slíku máli. Ég ætla að leyfa mér að efast um að Ásmundur sé sá eini sem hafi fengið slíkar endurgreiðslur.

Niðurstaða forsætisnefndar um að ekki sé tilefni til rannsóknar stenst ekki skoðun. Það ætti að vera augljóst öllum sem skoða gögnin. Þau tala sínu máli. Ef forsætisnefnd telur þau gögn ekki vera nægilegt tilefni til rannsóknar þá verður sú nefnd bara að hafa það á sinni samvisku.

Ég frábið mér einnig að ég sé að þjófkenna 62 þingmenn. Ég undanskil sjálfan mig ekki í erindi mínu. Tæknilega séð er hægt að túlka það sem ásökun um þjófnað að ég biðji um rannsókn vegna þeirra upplýsinga sem ég lagði fram. Ég sé ekki hvernig ég kemst hjá því né hvernig ég gæti beðið um rannsókn á annan hátt en að hægt sé að túlka slíkt sem ásökun um þjófnað. Ég segi, taki það bara til sín sem eiga. Tilefnið til rannsóknar er augljóst hvort sem það þýðir af eða á um niðurstöðuna. Það sem fólk er að segja með ásökunum um þjófkenningu hins vegar er að það megi aldrei leggja inn slíkt erindi. Sendiboðinn er skotinn.

Ég held að þingmenn ættu að spara stóru orðin og yfirlýsingar um sakleysi eða sekt. Það sér það hver sem getur opnað augun að málsmeðferðin var hvítþvottur.