Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf í gær, umræður á Alþingi, um umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara. Hann sagði meðal annars að hluta vandans vera stjórnsýslulegan.
„Ég nefni tvennt, málaflokkurinn heyrir undir tvo ráðherra og félagsleg þjónusta við aldraða er í meginatriðum á hendi sveitarfélaga en heilbrigðisþátturinn á hendi ríkisins. Ábyrgðinni er þannig kastað á dreif og ekki víst að leiðir og lausnir verði árangursríkar og markvissar.“
Þá sagði þingmaðurinn að til sé fullbúið módel og leiðarkerfi sem fagfólk vill hrinda í framkvæmd. „Sem er fjölþætt heilsurækt aldraðra í samstarfi við sveitarfélög og hefur það að langtíma- og viðvarandi markmiði að móta heilsueflandi samfélög. En kostnaður við að hrinda hugmyndinni í framkvæmd stendur verkefninu sennilega fyrir þrifum.“