- Advertisement -

Maðurinn með leðurhanskana

Þau verða í tveimur efstu sætunum, Áslaug og Eyþór.

Pólitík Nánast allt bendir til að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík velji Eyþór Arnalds sem næsta leiðtoga sinn. Áslaug Friðriksdóttir á vissulega möguleika, en ekki mikla. Ástæðan er ekki kostir eða gallar frambjóðendanna. Heldur sú að innsta klíka flokksins er á bandi Eyþórs, eða kannski má segja að Eyþór sé frambjóðandi þess sem var og þess sem er. Ekki framtíðarinnar.

Kjartan Magnússon

Aðrir frambjóðendur koma varla til greina. Aumast er hlutskipti Kjartans Magnússonar. Hann hefur verið borgarfulltrúi lengur en elstu menn muna. Kjartan virðist vanta það sem þarf. Hann virðist ekki eiga upp á pallborðið. Sé einhver hissa á þeirri stöðu þá er það Kjartan sjálfur. Trúlega hefur hann, með framboði sínu, tekin eigin pólitíska gröf.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Vilhjálmur Bjarnason

Vilhjálmur Bjarnason er ekki eins læs á stjórnmálin og ætla mátti. Hann er í sárum eftir að hafa misst þingsætið sitt. Sem hann getur svo sem kennt formanni flokksins, Bjarna Benediktssyni um, sem færði Vilhjálm í vonlaust sæti. Vihjálmur mun ekki ná merkilegum árangri. Það gat hver sem var sagt honum. Annað hvort ráðfærði hann sig ekki við nokkurn annan, eða hlustaði ekki.

Viðar Guðhjonsen

Viðar Guðhjonsen á marga stuðningsmenn í Sjálfstæðislokknum. Samt ekki nógu marga til að ná ásættanlegum árangri. Viðar er sérstakur frambjóðandi. Fordómafullur og harðbrjósta. Stundum virkar hann sem gróf mynd af Brynjari Níelssyni. Ekki er víst að á milli þeirra sé svo mikill skoðanamunur. Viðar verður ekki leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Áslaug María Friðriksdóttir

Áslaug María Friðriksdóttir er eflaust vænlegasti frambjóðandinn. Hún er líklegust til að afla flokknum atkvæða í kosningunum sjálfum. Áslaug er kona á besta aldri í þetta hlutverk. Hér er ekki ætlunin að telja upp kosti hennar. Öruggt er að andstaðan við hana innan flokksins er ekki vegna þess að efast sé um að hún valdi hlutverkinu. Ástæðan er sú að Áslaug hefur ekki tekið einarða stöðu gegn öllu sem núverandi meirihluti leggur til eða hefur lagt til. Innan Sjálfstæðisflokksins er það nánast dauðadómur. Þess er henni ætlað að gjalda nú. Sem sást vel þegar henni var bannað, með skipun að ofan, að tala á fundi kvenna í Sjálfstæðisflokknum. Óttinn birtist þar.

Eyþór Arnalds

Eyþór Arnalds er frambjóðandi æðstu klíkunnar. Kallaður til svo Áslaug María verði ekki leiðtogi. Eyþór hefur farið mikinn. Skrifar ótt og títt og birtir gnótt auglýsinga. Þar gengur hann um Reykjavík og finnur að einu og öðru. Vatnsgreiddur klæddur í leðurhanska. Fyrir andstæðinga Sjálfstæðisflokksins er mun betra að Eyþór sigri en Áslaug María. Eyþór er búinn að segja svo mikið, sumt rétt og annað galið að í öllum kappræðum verður hann strax hrakinn í vörn. Vera má að á fámennum klíkufundum hljómi vel að hafa þá einu skoðun að vera á móti, en í lífinu sjálfu er það ómöguleg afstaða. Eyþórs bíður hörð barátta þar sem hann mætir ofjörlum sínum.

Andvana aðferð

Hvað sem verður er ljóst að leiðtogaprófkjörið var andvana fætt. Sjálfstæðisflokkurinn leggur því draghaltur af stað í kosningabaráttuna. Ekki nóg með það, valdaklíkan færir andstæðingunum veikan leiðtoga sem mun ekki mun koma flokknum til valda í Reykjavík. Enn eina ferðina.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: