- Advertisement -

„Maður drekkur ekki með hverjum sem er“

„Mér finnst að Íslendingar eigi að sniðganga Eurovision í stað þess að skemmta sér og öðrum í slagtogi með fulltrúum ofstækisstjórnar Ísraels.“

Birgir Dýrfjörð.

Birgir Dýrfjörð rafvirki skrifar:

Það var  á Hótel Mælifelli á Króknum, að nokkrir menn í jakkafötum með bindi sátu í salnum og höfðu í glasi.

Þá kom þar vínkær maður þekktur fyrir sérkennileg tilsvör.  Hann lýsti oft vínhneigð sinni með frægu svari kennt við Kota-Valda,  „Ég neita aldrei sjússi,  það er móðgun við forlögin.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Harðlínustjórn Ísraels hefur sagt sig úr lögum við alla mennsku.

Fínu mennirnir við borðið kölluðu til hans, Tóti (það er gervinafn) viltu ekki í glas?  Jú alltaf.  Komdu og  fáðu í glas með okkur. Nei alls ekki. Ertu hættur að drekka eða hvað? Nei alls ekki. Hvað er þá að, af hverju viltu ekki í glas? Það er af því drengir, að ég drekk bara ekki með hverjum sem er.

Þetta svar Tóta þótti gott og spurðist um bæinn.  Seinna sagði hann mér sjálfur að hann hefði svarað svona því hann vissi að þeir ætluðu að reyna að spila með sig,  og þó ég sé oft fullur og illa klæddur þá lít ég nógu stórt á mig til að skála ekki við svona lið.

Eurovision
Þetta þekkta svar Tóta rifjaðist upp fyrir mér í umræðunni um  Eurovision og hvort Íslendingar eigi að hundsa keppnina og sitja heima eða mæta og skemmta sér og öðrum með fulltrúum Ísraels.

Ég veit vel að sniðganga okkar hefði lítil áhrif á keppnina sjálfa. Hún getur aftur á móti haft mikil áhrif á okkar eigin sjálfsvirðingu, og samúð okkar með saklausum manneskjum, sem finna hvergi skjól í útrýmingarherferð Ísraels ríkis. Nú er það fólk skotið á færi eins og dýr í sportveiði.

Ég hef sjálfur stundað veiðar með stórum rifflum, (Sako og Hornet)  með sigtiskíkir stilltum á 100 og 150 metra.  ég veit því að skyttan velur sér alltaf skotmarkið. Hún sér alltaf hvort bráðin fellur.

Þannig er það líka með ísraelska hermanninn hann sér alltaf hvort honum hafi tekist að særa eða drepa bráðina,  sem hann valdi sér sem skotmark.  (Manninn, konuna, barnið.)

Harðlínustjórn Ísraels hefur sagt sig úr lögum við alla mennsku. Það er kannski stigsmunur á drápsaðferð þeirra og Nasistanna en engin eðlismunur er á grimmdinni og djöfuldómnum.

Miskunnarleysi og grimmd Hitlers er nú að raungerast í Ísrael, heimaríki gyðinga.

Það er meira en skelfilegt, það er ólýsanlegt.  Það er líka skelfilegt, að athæfi ofstækismanna í stjórn

Ísrael skuli kveikja hatur og valda árásum og dauða saklausra gyðinga um allan heim.

Sú atburðarás er þegar hafin og hún mun magnast hratt og vara lengi.

 Sitjum heima  

Mér finnst að Íslendingar eigi að sniðganga Eurovision í stað þess að skemmta sér og öðrum í slagtogi með fulltrúum ofstækisstjórnar Ísraels.

Við eigum að hafa manndóm eins ölkæri maðurinn á Sauðárkróki, sem langaði sárt í sopann en neitaði honum samt og sagði „Ég drekk ekki með hverjum sem er.“                             


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: