- Advertisement -

Má ekki móðga íslenska fánann

Stjórnmál Lögin um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldamerkið eru frá árinu 1944. Lög þessi kveða skýrt á um hvernig fáninn skuli líta út, hvenær megi flagga og hvernig skuli með hann fara. Sem dæmi þá hljóðar fyrsta grein laganna svona: „Hinn almenni þjóðfáni Íslendinga er heiðblár með mjallhvítum krossi og eldrauðum krossi innan í hvíta krossinum. Armar krossanna ná alveg út í jaðra fánans, og er breidd þeirra 2/9, en rauða krossins 1/9 af fánabreiddinni. Bláu reitirnir eru rétthyrndir ferhyrningar: stangarreitirnir jafnhliða og ytri reitirnir jafnbreiðir þeim, en helmingi lengri. Hlutfallið milli breiddar fánans og lengdar er 18:25.“ Tólfta grein laganna er ekki jafnítarleg en hún hljómar svona: „Enginn má óvirða þjóðfánann, hvorki í orði né verki.“

Nokkuð hefur verið rætt um þessi fánalög að undanförnu, sem og svo oft áður, hvort um sé að ræða úreltan lagabókstaf eða kærkomna festu við þetta sameiningartákn þjóðarinnar.  Það var á árinu 2008 sem tímaritið Mannlíf spurði þá tvo fulltrúa á Alþingi.

Á að breyta íslensku fánalögunum?

 

Með

Sigurður Kári Kristjánsson er þeirrar skoðunar að það gildi allt of strangar reglur um íslenska þjóðfánann. Hann er þeirrar skoðunar að menn eigi ekki að komast upp með að vanvirða fánann að neinu leyti en það megi vel leyfa notkun hans af fleiri tilefnum en nú sé gert. Sigurður segir jafnframt að það eigi að vera sjálfsagt mál að leyfa notkun hans á íslenska framleiðslu sem seld sé úr landi, eins og fiskinn okkar og fleira sem hvort tveggja myndi auka sölu á afurðinni og vera ágætislandkynning fyrir okkur.

„Það þarf líka að endurskoða hvenær fólk má flagga. Maður er farinn að sjá sumarhúsaeigendur hengja upp einhverjar veifur í kringum húsin sín bara til að mega nota fánann allan sólarhringinn. Hvað kemur það að sök þó að fólk flaggi allan sólarhringinn? Maður sér ekki að það skaði bandaríska fánann nema síður sé að hann hangi uppi víða um borgir og bæi allan ársins hring. Þeir eru mjög stoltir af sínum fána og nota hann við hvert tækifæri. Eins er alltaf erfitt þegar reglur eru orðnar þannig að fólk fer eiginlega ekkert eftir þeim og viðurlögum ekki fylgt. Ef lögreglan hefði átt að fylgja lögum eftir þegar þjóðin tók á móti íslenska handboltalandsliðinu á dögunum þá hefði hún ekki gert annað en að rífa niður fána sem ekki uppfylltu staðla laganna.“

Sigurður segir tíma tilkominn að rýmka reglurnar sem settar voru 1944. Á þeim tíma hafi nýfengið sjálfstæði ráðið för og lögin verið skiljanleg í því samhengi en nú séu aðrir tímar og fáninn eigi að vera notaður á góðum stundum.

Móti

Guðni Ágústsson segist íhaldssamur varðandi fánann og hann segir nauðsynlegt að þjóðin beri mikla virðingu fyrir íslenska þjóðfánanum nú sem áður. Hann segir fánann heilagt tákn þjóðarinnar og er alls ekki á því að nota eigi hann hvar sem er og  hvenær sem er sólarhringsins.

„Þó að við viljum nota fánann vil ég alls ekki að hann hangi bara eins og drusla hér og þar og að farið verði með hann eins og einhverja tusku. Við megum vissulega nota fánalitina meira en gert hefur verið að undanförnu en fáninn er heilagt tákn sem skiptir okkur gríðarlega miklu máli.“

Guðni segir mjög mikilvægt að fáninn sé ekki óvirtur en það sé vel hugsanlegt að nota megi hann meira. Það sjáist til dæmis vel á handboltasigrinum að nú verði fáninn okkar þekktari víðar um heim og það sé af hinu góða.

„Ég er alveg tilbúinn að styðja það á Alþingi að fánalögin verði endurskoðuð og það má líklega gera einhverjar smávægilegar breytingar en það verður að vanda vel til þess verks. Það verður að vera vel kortlagt hver megi nota fánann og af hvaða tilefni, en hvert smáatriði í þeim efnum getur verið mjög viðkvæmt. Hver á til dæmis að fá að ráða því hvaða vöru megi skreyta með íslenska fánanum og hvað megi  ekki í þeim efnum? Það má ekkert gera sem móðgar fánann og særir íslensku þjóðina svo að þessar breytingar verða að vera á hendi færustu manna.“

 

 

 

 

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: