„Það er alkunna að öllum byltingum fylgir ógnarstjórn meðan nýir valdhafar eru að ná tökum á stöðunni. Hin „nýja stétt“ yfirmanna á Eflingu tamdi sér þann stjórnunarstíl að þeir sem andmæltu þeim eða reyndu að leiðbeina þeim féllu þegar í stað í ónáð. Annaðhvort var að hlýða yfirmönnum í einu og öllu eða taka pokann sinn. Þetta var þeim mun alvarlegra vegna þess að starfsmenn sem urðu fyrir þessari framkomu höfðu langa reynslu og víðtæka þekkingu af starfi fyrir félagið,“ skrifar Þráinn Hallgrímsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Eflingar, í grein þar sem hann lýsir ótrúlegum atburðum á skrifstofu Eflingar eftir stjórnarskiptin í félaginu.
Þráinn rekur uppsagnir á skrifstofu félagsins, þar á meðal eigin brottrekstur. Greinina birtir hann í Mogganum.
„Síðasti brottrekstur á Eflingu var með þeim hætti að starfsmanni var sagt upp störfum fyrirvaralaust. Honum var gert að mæta samstundis hjá framkvæmdastjóra þar sem fyrir var „fulltrúi starfsmanna“ sem framkvæmdastjóri hafði sjálfur valið til setu á fundinum. Ástæða uppsagnar var sögð skipulagsbreytingar. Fljótlega kom í ljós að það var fyrirsláttur enda ráðnir þrír nýir starfsmenn um svipað leyti og engin af verkefnum viðkomandi starfsmanns voru lögð niður. Kunnuglegt bragð stjórnenda fyrirtækja, ekki satt! Áminningarferill var ekki virtur í samræmi við ákvæði kjarasamnings. Í næsta herbergi beið einn lögmanna ASÍ. Þegar starfsmaðurinn neitaði að skrifa undir móttöku uppsagnarbréfs tók lögmaður ASÍ að sér að reyna að sannfæra starfsmanninn um að þessi framkoma framkvæmdastjórans væri í lagi. Enginn varði hagsmuni starfsmannsins á fundinum. Enginn var henni til aðstoðar. Lauk þessu þannig að starfsmanninum var fylgt úr húsi fyrir framan aðra starfsmenn og tekinn af henni lykill og bílakort. Starfsmanninum var síðan meinað að mæta á fyrrverandi vinnustað sinn á skrifstofutíma til að sækja persónulega muni sína,“ skrifar Þráinn og bætir við:
„Ég veit að það er erfitt fyrir lesendur að trúa þessu en svona eru vinnubrögð forystu Eflingar sem hefur það að meginhlutverki að verja launamenn, réttindi þeirra og stöðu. Þannig hafa þau hagað sér.“
Í lok langrar greinar sendir Þráinn Sólveigu Önnu Jónsdóttur tóninn:
„Ég vitna í lokin í skrif formanns Eflingar, Sólveigar Önnu, í Fréttablaðinu 19. september sl. þar sem hún ræðir um meðferð á útlendingum. Þar segir hún að til viðbótar hinni ömurlegu hegðun atvinnurekenda bætist vanvirðandi framkoma og hótanir… séu notaðar til að kúga fólk til hlýðni. Ég tel að formaður Eflingar þurfi ekki að fara langt frá vinnustað sínum til að upplifa nákvæmlega sama hugarfar. Á því hafa burtreknir starfsmenn og fólk sem hrakið hefur verið í langtímaveikindi fengið að kenna. Líttu þér nær, Sólveig.“