- Advertisement -

Lýðræðið á mjög erfitt með að standast rentusókn atvinnuvega

Haukur Arnþórsson skrifaði:

Haukur Arnþórsson.

Okkur hættir til að ofnota hugtakið „lýðræði“ og gefa því mjög víðtæka merkingu. Þannig munum við berjast undir orðunum „lýðræði ekki auðræði“ á laugardaginn kl. 14:00. Hins vegar erum við oft að meina réttlæti og jöfnuð eða jafnvel norrænar samfélagshefðir þegar við notum lýðræðishugtakið – og á það kannski við í þessu tilviki.

Á fundinum á laugardaginn erum við raunverulega að tala um að stjórnmálamenn eigi að taka almannahagsmuni fram fyrir sérhagsmuni, sem þeir hafa ekki gert og fiskveiðistjórnunarkerfið allt og framkvæmd þess er til marks um – og við yddum þá meiningu með kröfunni um auðlindir fyrir okkur.

Auðlindirnar í okkar hendur vísar síðan til norrænna hefða sem einkum birtist í Noregi varðandi fyrirkomulag olíumálanna – og við viljum fara þá leið og koma úthlutunum aflaheimilda á uppboðsmarkað sem bæði gefur ríkinu hæsta hlutdeild í arðinum og dregur úr rentusókn atvinnuvega gagnvart stjórnmálamönnum.

Satt að segja er það lýðræðið sem á mjög erfitt að standast rentusókn atvinnuvega. Þannig er til hugtakið „bölvun auðlindanna“ sem vísar til þess að jafnvel í bestu lýðræðisþjóðfélögum ná auðhringir heljartökum á auðlindum og sjúga úr þeim allan arð – þannig að þjóðin væri betur sett án auðlindanna. Og raunar sýnir alþjóðleg tölfræði að þeim þjóðum sem ekki eiga neinar auðlindir vegnar best efnahagslega.

Lýðræði er því ekki endilega andstæða við auðræði, þótt hugtökin jöfnuður og réttlæti séu það.

Enda þótt það sé kannski mótsagnakennt er það síðan lýðræðislegur réttur okkar að mótmæla á laugardaginn og reyna þannig að fá stjórnmálamennina ofan af sérhagsmunagæslu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: