- Advertisement -

„Lundafléttan“ fór illa í þingheim

- harðar ræður voru fluttar á Alþingi vegna ummæla Benediks Jóhannessonar fjármálaráðherra vegna sölunnar á Vífilsstaðalandinu.

Þingmenn brugðust hart við þegar Benedikt Jóhannesson fjármálaráðhera sagði: „Það vantar lundann í þennan samning, það eru þau vinnubrögð sem háttvirtur þingmaður vill viðhafa.“ Engum dylst hvað hann ætlaði Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, og upphafsmanni umræðu um sölu Vífilsstaðalandsins til Garðabæjar.

Sigurður Ingi Jóhannsson.
„…svo að hann gæti haldið áfram að ata fólk auri…“

Haldi áfram að ata fólk auri

Sigurður Ingi kom í ræðustól eftir ræðu fjármálaráðherra: „Ég ætlaði að fara fram á það við hæstvirtan forseta að hann gæfi hæstvirtum fjármálaráðherra fimm mínútur aukalega til að svara, svo að hann gæti haldið áfram að ata fólk auri, gera fólki upp skoðanir og kannski á síðustu mínútunni hugsanlega hafa hlustað á þá gagnrýni sem sett var fram í þessum sal á þann samning sem hann hefur gert. Hann gæti þá kannski notað tuttugu sekúndur til að svara málefnalega þeirri gagnrýni sem hér var sett fram.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom næst í ræðustól: „Ég held að ráðherrann ætti að koma í pontu og biðjast afsökunar á þessu, ég held hann hafi hlaupið á sig. Ég trúi því ekki að þetta sé það sem hann meinar, þau orð sem hann lét falla hér. Það er auðvitað engum til sóma, hvorki honum né öðrum að gera slíkt, að vaða svona í fólk eins og hér var gert. Ég hvet hæstvirtan ráðherra til að gera það.“

Þá kom Kolbeinn Óttarsson Proppé og sagði meðal annars: „Það er fátt sem sýnir betur rökþrot stjórnmálamanna en það þegar þeir eru farnir að ata þá sem eru kannski ekki alveg sömu skoðunar eða eru einfaldlega bara að ræða málin við þá aur.“

 

Katrín Jakobsdóttir.
„Ég spyr mig nú bara: Hvurs lags er þetta?“

Trúði varla mínum eigin eyrum

Katrín Jakobsdóttir blandaði sér í málið: „Ég var nú að fylgjast með þessari umræðu hér niðri og trúði eiginlega varla mínum eigin eyrum, að verið væri að líkja málflutningi háttvirts þingmanns Sigurðar Inga Jóhannssonar við lundafléttuna úr Hauck & Aufhäuser-skýrslunni. Ég spyr mig nú bara: Hvurs lags er þetta?

Ég held nú að hæstvirtur ráðherra væri maður að meiri ef hann kæmi hingað upp og bæðist afsökunar á þessum orðum sínum, frú forseti.“

Álfheiður Ingadóttir sagði til dæmis þetta: „Og svei mér þá, þessi vinnubrögð, þessi lítilsvirðing við þingið, og að koma svo hér og hreyta ónotum í málshefjanda sem hér er búinn að bíða í einn og hálfan mánuð eftir því að fá að eiga orðastað við ráðherrann, það er bara eitt sem kemur upp í hugann: Það er vestur í Bandaríkjunum: Trump-isminn. Er það hann sem við ætlum að fara að innleiða hér?“

Þórunn Egilsdóttir.
„Ég fer þess á leit að hann biðji háttvirtan þingmann Sigurð Inga Jóhannsson afsökunar á þeim.“

Ítrekað með hroka og yfirlæti

„…formaður Viðreisnar, kemur hér ítrekað upp í samtölum við Alþingi með hroka og yfirlæti,“ sagði Svandís Svavarsdóttir. Og: „Treystir þessi ráðherra sér ekki í málefnalegar umræður? Er það eitthvað sem hæstv. ráðherra ræður ekki við?“

Oddný Harðardóttir biðlaði til forseta þingsins: „Ég bið forseta að standa með þingmönnum í þessu máli og krefjast þess að ráðherrarnir hagi sér almennilega og komi fram við okkur af virðingu.“

Þórunn Egilsdóttir sagði ljóst að ekki séu allir sammála í málinu, en „þau orð sem hæstvirtur ráðherra lét hér falla eru algerlega óásættanleg. Ég fer þess á leit að hann biðji háttvirtan þingmann Sigurð Inga Jóhannsson afsökunar á þeim.“

Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
„…ekki fengið nein einustu svör við spurningum um sölu ríkisins á jörð Vífilsstaða…“

Lætur ekki einu sinni sjá sig

Rósa Björk Brynjólfsdóttir var næst: „Þetta er með ólíkindum. Hér höfum við þingmenn ekki fengið nein einustu svör við spurningum um sölu ríkisins á jörð Vífilsstaða heldur í staðinn fengið óásættanlega framkomu ráðherra í garð fyrirspyrjanda. Hæstvirtur fjármálaráðherra lætur ekki einu sinni sjá sig, hvorki hér í salnum né í hliðarsölum þingsins, heldur hverfur á brott um leið og þessum dónaskap er varpað hér fram í þingsal. Hann hefur ekki manndóm í sér til að koma hingað upp og biðjast afsökunar á þessum orðum. Og hefur heldur ekki manndóm í sér til að svara þeim spurningum sem við þingmenn erum að reyna að fá svör við, þ.e. um þau vildarkjör sem Garðabær fékk þegar ríkið seldi jörð Vífilsstaða til Garðabæjar.“

Þá er best að loka hringnum og vitna í seinni innkomu Sigurðar Inga. „Ég get reyndar líka skilið framkomu hæstvirts ráðherra, hann hefur svo margoft sýnt hana í þessum sal, og ekki á ég von á að hann biðji mig afsökunar.“

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: