- Advertisement -

LSH: Sjúklingar með bráðsmitandi veirusýkingar liggja á göngunum

Ég velti fyrir mér hvernig hægt sé að lýsa stöðunni á Landspítalnum svo ráðamenn skilji.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands og öldrunarlæknir er ekki sátt við framgöngu Willums Þ. Þórssonar heilbrigðisráðherra vegna hversu ástandið er hreint ömurlegt á spítalanum. Bæði skrifa þau greinar á Vísi. Byrjum á að skoða grein Steinunnar:

„Undanfarna daga hefur Landspítalinn verið stappfullur upp í rjáfur. Sjúklingar, sem ættu að vera á gjörgæslu liggja á yfirfullri bráðamóttöku. Sjúklingar, sem ættu að vera í einangrun vegna bráðsmitandi veirusýkinga liggja á göngum og á fjölbýlum, jafnvel innan um háaldrað fólk með heilabilun. Verið er að opna fleiri legurými í snarhasti til að slökkva eldinn. Til þess þarf starfsfólkið að bæta enn fleiri verkefnum á sig. Því fjölgar ekki í takt við sjúklingana.

Ég velti fyrir mér hvernig hægt sé að lýsa stöðunni á Landspítalnum svo ráðamenn skilji. Svo dregið verði úr rúmanýtingu Landspítalans þannig að hún sé ekki um og yfir 100% á hverjum einasta degi ársins, hlutfall sem er langt yfir öryggismörkum. Svo farið verði að taka af alvöru myndugleik á útskriftavanda spítalans með kröftugri uppbyggingu utanspítalaþjónustu sem tekur mið af raunveruleikanum sem blasir við þjóð sem eldist hratt. Svo farið verði í alvöru átak til að vinna á biðlistum eftir aðgerðum og annarri bráðnauðsynlegri þjónustu. Svo heilsugæslan verði efld til að sinna grunnhlutverki sínu sem fyrsti viðkomustaður veikra í heilbrigðiskerfinu. Svo styrkum stoðum verði aftur rennt undir þá mikilvægu þjónustu sem sjálfstætt starfandi læknar veita og sem léttir tvímælalaust álagi af sjúkrahúsum og heilsugæslu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Neyðarkallið snýst um þetta.

Neyðarkallið snýst um þetta. Ekki um bráðabirgðalausnir til að slökkva elda. Vissulega er nauðsynlegt að slökkva eldinn sem brennur þessa dagana áður en allt brennur til kaldra kola. Ég treysti framlínustarfsfólki í heilbrigðiskerfinu vel til þess verks, með fulltingi stjórnvalda og stjórnenda heilbrigðisstofnana. En hvað gerist í sumar þegar þetta sama framlínustarfsfólk þarf verðskuldað sumarfrí? Verður heilbrigðisstarfsfólkið þá þriðja árið í röð kallað til vinnu úr sumarfríum sínum vegna manneklu? Hvað gerist næsta vetur þegar veirurnar fara aftur á stjá? Fer þá aftur allt á hliðina eða verður búið að grípa til aðgerða sem duga?“

Þetta er hreint ótrúlegar lýsingar. Steinunn skrifaði meira en þetta í greininni. Lesið þetta:

„Í kvöldfréttum RÚV miðvikudaginn 28. desember sagðist heilbrigðisráðherra ekki skilja um hvað neyðarkall mitt sem formanns Læknafélags Íslands vegna manneklu og ofurálags snúist. Það var erfitt að heyra.“

Sem fyrr segir skrifaði Willum líka grein. Lesum hluta greinarinnar:

Samhent átak þvert á ráðuneyti…

„Fjöldi innlagna hefur sjaldan verið meiri en síðastliðna daga á Landspítala. Stjórnendur og starfsfólk spítalans hafa mætt þessari flóðbylgju á aðdáunarverðan hátt. Bráðamóttaka Landspítala ber hitann og þungann af bráðaþjónustu í landinu. Undanfarið ár hefur verið markvisst unnið að því að styðja við þá mikilvægu starfsemi og heilbrigðiskerfið sem hún er órjúfanlegur hluti af.“

Er ekki rétt að rifja upp að fjármálaráðherrann hefur ekki samið við hjúkrunarfræðinga í mörg. Þurft hefur félagsdóm til að ljúka deilu Bjarna og hjúkrunarfræðinga. Sérgreinalæknar ná ekki samningi við Bjarna. Skilningsleysið er fullkomnað hjá Bjarna og Willum. Gefum honum aftur orðið.

„Landspítalinn hefur lyft grettistaki er kemur að umbótum í skipulagi starfseminnar og viðbrögðum við auknu álagi. Forgangsraðað er fumlaust í þágu bráðra og brýnna verkefna og álagi er dreift kerfisbundið á allan spítalann. Ný legudeild hefur meðal annars verið opnuð tímabundið nú í vikunni til að bregðast við stöðunni. Einnig er vert að nefna að í sumar fór af stað ný fjarþjónusta bráðadagdeildar lyflækninga og dagdeildin sjálf var stækkuð og efld. Sú starfsemi hefur gengið vel og komum hefur fækkað á bráðamóttökuna fyrir vikið. Fjölmargar aðrar aðgerðir hafa verið framkvæmdar eða eru í vinnslu. Miklar vonir eru bundnar við að ný stjórn og ný framkvæmdastjórn muni halda áfram á þessari góðu vegferð í samráði við starfsmenn spítalans og notendur.

…mannauður heilbrigðiskerfisins er takmörkuð auðlind.

Það er staðreynd að mannauður heilbrigðiskerfisins er takmörkuð auðlind. Við þurfum því að styðja við hann og stuðla að fjölgun heilbrigðisstarfsmanna. Samhent átak þvert á ráðuneyti er í fullum gangi þar sem forgangsraðað er í þágu menntunar heilbrigðisstarfsmanna og heilbrigðisráðuneytið er að beita sér fyrir því að starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna sé best. Uppbygging nýs Landspítala, áhersla á menntun, vísindi- og nýsköpun, aukið samstarf, bætt skipulag og öryggismenning eru meðal fjölmargra aðgerða sem eru í gangi. Í ljósi langvarandi álags á heilbrigðisstarfsfólk verður sérstöku fjármagni veitt í endurheimt og stuðning á nýju ári.

Allt helst þetta í hendur og saman vinnum við markvisst að því að minnka álag í heilbrigðiskerfinu. Álag á bráðamóttöku Landspítalans er nefnilega birtingarmynd álags í öllu heilbrigðiskerfinu. Höldum bjartsýn inn í nýtt ár með aukna fjárveitingu og fjölda góðra verkefna í farteskinu. Göngum hægt um gleðinnar dyr um áramótin og pössum upp á hvert annað.“

Ekki er sem Willum hafi kveikt á perunni. Það er aumt í þeirri stöðu sem við erum í.

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: