- Advertisement -

Louisa Matthíasdóttir. „Kyrrð“ á Kjarvalsstöðum

Viðamikil yfirlitssýning á verkum Louisu Matthíasdóttur, Kyrrð, verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum, sunnudaginn 30. apríl kl. 16.00. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, opnar sýninguna.

Listakonan Louisa Matthíasdóttir var fædd í Reykjavík árið 1917. Aðeins sautján ára hélt hún í listnám til Kaupmannahafnar, þar sem hún dvaldi í þrjú ár, og skömmu eftir það fór hún sömu erindagjörða til Parísar. Hún sneri aftur heim til Íslands rétt fyrir stríð árið 1939. Þremur árum síðar hélt hún til frekara myndlistarnáms í New York þar sem hún kynntist bandarískum eiginmanni sínum, listmálaranum Leland Bell.

Í ár eru liðin 100 ár frá fæðingu Louisu en hún lést í Bandaríkjunum árið 2000 þar sem hún bjó mestan hluta ævinnar.

Á sýningunni í vestursal Kjarvalsstaða gefst kærkomið tækifæri til að fá yfirsýn yfir feril listakonu sem hefur túlkað íslenskt landslag á einstakan hátt. Þar má einnig sjá fjölda málverka af reykvísku borgarlífi, kyrralífsmyndir, myndir af fjölskyldu Louisu og henni sjálfri.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sýningarstjóri er Jón Proppé.

Louisa er þekkt fyrir persónulegan stíl, einföld og sterk form, heila og afgerandi litafleti og örugga og þróttmikla pensilskrift. Verk hennar hafa yfir sér ákveðna kyrrð og hreinleika sem endurspeglar persónu listakonunnar og yfirbragð. Louisa talaði lítið um eigin myndlist en í texta frá 1983 segir hún; „Þegar allt kemur til alls er málverk ekki kyrralíf eða landslag, það er bara strigi. Það getur aldrei verið raunveruleikinn. Það hlýtur alltaf að vera málverk.“

Það má segja að Louisa hafi verið eins konar huldukona í íslenskri myndlist þar til hún sýndi á Haustsýningu Félags íslenskra myndlistarmanna árið 1974, þá komin hátt á fimmtugsaldur. Þá var Louisa fullþroskaður listamaður og á hátindi ferils síns í Bandaríkjunum, hafði haldið fjölda sýninga og með samning við öflugt gallerí í New York. Íslenskir listunnendur og gagnrýnendur tóku verkum Louisu einkar vel og þegar hún hélt sína fyrstu einkasýningu á Íslandi, í Gallerí Borg haustið 1987, skrifar Ólafur Gíslason í Þjóðviljann eitthvað á þá leið að ef bestu landslagsmálverk Louisu tali ekki til hjarta áhorfandans hljóti sá maður að vera sjónlaus.

Samhliða sýningunni verður gefin út sýningarskrá með texta um Louisu og myndum eftir hana, auk viðamikillar dagskrár á Kjarvalsstöðum í tengslum við sýninguna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: