Hagfræðingurinn Þorsteinn Siglaugsson skrifar sérstaka grein í Fréttablaðið. Hann er mjög gagnrýnin á sóttvarnaraðgerðirnar. Telur þær beinlínis hættulegar.
„Lokun landsins veldur dauðsföllum. Á því er ekki nokkur vafi. Þessi dauðsföll koma ekki endilega strax fram; það getur tekið mörg ár. Stjórnvöld halda ekki úti neinni vefsíðu til að tíunda þau. Þau rata ekki heldur í fjölmiðla. En þau eru raunveruleg og þau eru bein afleiðing af misráðinni ákvörðun stjórnvalda,“ segir Þorsteinn í greininni.
„Það er skylda stjórnvalda að hafa líf og heilsu alls almennings í forgangi. Því verða þau að stöðva þessar gagnslausu aðgerðir áður en skaðinn verður meiri en orðið er. Þannig mætti milda mjög þann grafalvarlega vanda sem þúsundir fjölskyldna standa nú frammi fyrir,“ segir hann.
Árangurinn er í samræmi við fáránleikann.
Þorsteinn spyr: „Hversu mörgum mannslífum hefur lokunin í raun og veru bjargað? Og hversu mörgum mannslífum er fórnað með henni?“
Næst segir hann: „Lesendum er látið eftir að meta það, en ég óttast að lítill vafi sé á að fórnin er umtalsvert meiri en ávinningurinn. Sér í lagi þar sem markmið lokunarinnar um eðlilegt líf innanlands hefur bersýnilega alls ekki náðst, líkt og nýjustu aðgerðir sýna.“
Þorsteinn segir Ísland standa illa: „Það er líkt og stjórnvöld séu að reyna að verja hús fyrir vatni og vindum með því að þétta gluggana þegar þakið er fokið af. Árangurinn er í samræmi við fáránleikann. Nú er Ísland meðal þeirra tíu Evrópulanda þar sem nýgengi smita er mest. Langtum meira en í löndum þar sem landamæri eru opin.“
Þorsteinn sér ekki ávinninginn af lokun landamæranna: „Ekki liggur fyrir hversu mörgum störfum var fórnað með lokun landsins 19. ágúst, en reikna má með að þau skipti þúsundum. Þegar þetta er ritað hafa samkvæmt covid. is greinst 18 virk smit við seinni skimun, svo smitin sem forðað er með þessari stórskaðlegu ráðstöfun eru sárafá. Á sama tíma greindust 700 smit innanlands. Hlutfall smitaðra á landamærum er 0,4% frá upphafi.“