- Advertisement -

Loks á áfangastað

Lettinn stóð sig vel.

Vetur á Spáni Það var síðdegis á mánudag sem við náðum á áfangastað. Íbúð við Calle Pintor Botí í Villamartin beið okkar. Leiðin var löng og ekki alltaf greið. Siglingin með Norrænu var hreint ágæt. Viðkoman í Færeyjum var hápunkturinn. Höfðum hvorugt komið þangað áður.

Eftir að við komum til Hirtshals á Jótlandi hófst aksturinn suður eftir álfunni okkar. Fyrsti leggurinn var stuttur. Innan við 600 kílómetrar. Hvíldumst í frábærri gistingu nærri Hannover.

Vorum ákveðin í að aka drjúgt á sunnudeginum. Allt að 1.200 kílómetra. Og það gerðum við. Vissum ekki fyrir hvort væri betra að verra að keyra um helgi eða ekki. Hvort betra væri að fara um þegar trukkarnir voru í hvíld. Vitum nú að betra er að fara um á virkum dögum. Almenn umferð er mikið minni þá daga.

Hér erum við ekki á hraðbraut. Heldur á leiðinni að fínni gistingu nærri Hannover.

Hraðbrautirnar í Þýskalandi eru sérstakar. Hraðinn er hreint ofsafenginn. Við skröltum áfram á 120 til 130 kílómetra hraða. Eftir því sem við komum sunnar í Þýskalandi létti til og hitinn hækkaði. Þegar við nálguðumst Stuttgart gerðist tvennt. Ótal minningar um feril Ásgeirs Sigurvinssonar komum ósjálfrátt og sólin skein. Hitinn fór í 22 gráður.

Eftir að við komum til Frakklands breyttist allt. Það tók að rigna, og rigna og rigna. Við vorum sammála um að annað eins höfðum við ekki upplifað. Þó logn hafi verið segi ég það satt að rigning var svo mikil að vatnsflaumurinn af veginum og af himnum ofan dró úr hraða bílsins. Hann þurfi að hafa sig við blessaður til að halda uppi hraðanum.

Vegirnir í Frakklandi eru verri en í Þýskalandi. Hvítu línurnar við vegkantinn eru oft illsjáanlegar. Þá eru vegatollar í Frakklandi. Ólíkt Þýskalandi. Þar kostar ekkert að keyra.

Um kvöldið renndum við að flugvallarhóteli við Lyon. Urðum að vaða upp á miðja leggi til að komast inn á hótelið. Niðurföllin höfðu ekki undan.

Í góðviðrinu nærri Stuttgart streymdu til okkar frábærar minningar um Ásgeir Sigurvinsson.

Eftir fínan nætursvefn og morgunmat var lagt í á ný. Ákveðin að keyra alla leið. Sem og við gerðum. Vorum fegin þegar við náðum til Spánar. Umferðin var hófleg. Trukkarnir oftast á þeirri akrein sem var lengst til hægri. Þeirra ökumenn eru sumir sérkennilegir. Tóku stundum allar þrjár akreinarnar þar sem þeir eru í einhverskonar keppni. Kappakstri.

Komum á áfangastað síðdegis. Eftir að hafa ekið réttu um 1.200 kílómetra þann daginn og alls 3.000 á þremur dögum, eða tveimur og hálfum svo nákvæmni sé gætt.

Fyrsti dagurinn okkar hér var í gær. Það rigndi. Skoðuðum golfvelli, fórum í Rúmfatalagerinn, IKEA og matarbúð. Förum núna að skoða fleiri golfvelli.

Niðurstaðan er þessi: Það er of mikið að aka 1.200 kílómetra tvo daga í röð. Bæta þarf einum degi við svo langt ferðalag.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: