- Advertisement -

Lokaspil ríkisstjórnar Katrínar

Sigurjón Magnús Egilsson ritstjóri:

Eflaust dregur endalokin að ráðherrarnir finna til sín. Fín laun, einkabíll og bílstjóri og faðmlög við heimsþekkt fólk þar og hér. Hégómi.

Sama hvort ríkisstjórnin hrökklast frá eða ekki er víst að hún verður til minna gagns nú en verið hefur. Bjarni Ben kastaði fyrstu drullukúlunni. Tók upp orðfæri Jóns Gunnarssonar, daginn sem honum var vísað úr stjórninni. Svandís bætti um betur og ýtti á stóra stoppið.

Formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru stuðningsmenn Kristjáns Loftssonar um áframhald hvalveiða. Dýralæknirinn Sigurður Ingi gefur ekkert eftir í málinu.

Annars er það helst af honum að frétta að hann heldur blaðamannafundi ótt og títt og slær um sig með glærum. Grunur er um að hann noti alltaf sömu glærurnar, fund eftir fund. Kannski með smábreytingum. Boðar sífellt það sama en fátt annað gerist.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þingmaður Vinstri grænna sagði Bjarna vera sullandi í rasískum drullupolli. Ef rétt er stappar hann í pollinum þeim svo gusast á flokksfólkið. Sem er öllu vant og tekur þessu af gamalli venju.

Þórdís K.R. Gylfadóttir skellti hurðum í Moskvu og kallaði Árna Þór Sigurðsson sendiherra heim. Án þess að spyrja kóng eða prest. Rétt eins og Svandís í hvalamálinu.

Af þessu og öðru er ljóst að þetta er búið. Flokkarnir standa allir höllum fæti. Það kann að lengja ærandi vondan lokatón ríkisstjórnarinnar. Eflaust dregur endalokin að ráðherrarnir finna til sín. Fín laun, einkabíll og bílstjóri og faðmlög við heimsþekkt fólk þar og hér. Hégómi.

Lokaspilið má bara dragast um of. Þjóðin getur ekki endalaust haldið fyrir eyrun. Þetta eru vondir tíma fyrir þjóðina.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: