„Heimurinn stendur frammi fyrir ógnum af ýmsu tagi. Þar ber einna hæst ótryggt ástand heimsmála, meðal annars vegna hryðjuverka. Á undanförnum mánuðum höfum við Íslendingar ítrekað sent samúðarkveðjur til nágrannaþjóða okkar vegna voðaverka sem þar hafa verið unnin,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í þjóðarhátíðarræðu sinni á Austurvelli í morgun.
„Hér á landi er hættustig metið í meðallagi – sem þýðir að ekki er hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innanlands eða í heimsmálunum. Við verðum að varast að hér skapist jarðvegur fyrir hryðjuverk. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að tryggja að við getum áfram verið friðsöm þjóð,“ sagði hann.
„Það sem skiptir okkur öll mestu máli er að við búum áfram í öruggu umhverfi. Stjórnvöld munu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi landsmanna, bregðast við og meta aðstæður hverju sinni. Þessum verkefnum hefur lögreglan á Íslandi sinnt af ábyrgð og festu í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir og er verð þess mikla trausts sem hún hefur ávallt notið.“