Nánustu samstarfsmönnum Haraldar Johannesson, innan embættist ríkislögreglustjóra, er brugðið. Nýr ríkislögreglustjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, er af öðru sauðahúsi. Sem kallar á breytingar. Einstakir samningar sem Haraldur gerði, að því er virðist í fullkomnu heimildarleysi, verða teknir til baka. Viðkomandi yfirmönnum til mikillar armæðu.
Sigríður Björk tekur ekki einungis samningana til baka. Hún ætlar að gera meira. Í Mogganum í dag segir:
„Sigríður Björk hefur boðað miklar breytingar hjá ríkislögreglustjóra. Hún kallar það ekki hreinsanir en stöður verða auglýstar og nýir menn eiga að koma inn,“ segir Óskar Bjartmarz formælandi yfirmannanna sem missa spón úr aksi sínum, og vísar til tölvupósta.
Óskar lýsir fundi Sigríðar Bjarkar með yfirlögregluþjónum síðastliðinn miðvikudag með þessum orðum:
„Þar kom fram að samkvæmt lögfræðiáliti [frá Forum lögmönnum] myndi hún afturkalla þessa samninga. Þeir hefðu ekki verið löglega gerðir og að þeim yrði breytt um mánaðamótin maí og júní.“
Hann telur einsýnt að fyrir Sigríði Björk hafi ekki einungis vakað að kynna sér samningana heldur hafi hún frá upphafi viljað rifta þeim.
„Hún sagði starfsmönnum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í haust að forysta Lögreglustjórafélags Íslands væri að fara á fund hjá lífeyrissjóðnum út af þessu máli. Hún var búin að lýsa því yfir að svona samningar væru ekki í myndinni hjá hennar fólki hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Það er kjarni málsins. Manneskjan hefur allan tímann leynt og ljóst unnið að því að afnema þessa samninga með öllum þeim ráðum sem hún telur sig hafa,“ segir Óskar um þátt Sigríðar Bjarkar í málinu.
Þetta er ekki allt og vandséð er hvernig embættið verður starfhæft í því andrúmi sem þar ríkir. Vitnum aftur til Moggans í dag:
Að mati Óskars á andstaðan við samninga Haraldar rætur í valdabaráttu innan lögreglunnar. Má í þessu efni rifja upp viðtal Morgunblaðsins við Harald Johannesson 14. september síðastliðinn. Sagði Haraldur þá að gagnrýnin á embættið væri hluti af markvissri rógsherferð. Markmiðið væri að hrekja hann úr embætti. Í því skyni væri rangfærslum vísvitandi dreift sem og rógburði um hann.
Óskar víkur því næst að „herferð Lögreglustjórafélags Íslands gegn Haraldi varðandi vantraustsyfirlýsinguna á hendur honum“.
„Að mínu mati er nokkuð ljóst að það var ekki tilviljun að hún birtist sama dag og vantraustsyfirlýsing Landssambands lögreglumanna á hendur Haraldi. Að vantrausti Landssambands lögreglumanna stóð formaður Lögreglufélags Reykjavíkur, Arinbjörn Snorrason, sem svo vill til að er í yfirstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og nú í yfirstjórn Ríkislögreglustjóra með Sigríði Björk,“ segir Óskar, sem telur að annaðhvort hafi Sigríður Björk eða Úlfar verið í beinu sambandi við formann Lögreglufélags Reykjavíkur í aðdraganda samþykktar Landssambands lögreglumanna.