Hæstaréttarlögmennirnir Atli Ingibjargar Gíslason, Björgvin Þorsteinsson, Jón Magnússon, Tómas Jónsson og Þorsteinn Einarsson skrifa grein um orkupakkann og Alþingi í Mogga dagsins. Þeir vilja fresta orkupakkanum.
„Verði þriðji orkupakkinn samþykktur á Alþingi er Ísland þar með skuldbundið að þjóðarétti til að uppfylla ákvæði hans og innleiða í landsrétt. Ófullkomin innleiðing orkupakkans hér á landi gæti valdið orkufyrirtækjum, sæstrengsfyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum tjóni og gefið þeim tilefni til að höfða skaðabótamál gegn ríkinu. Þeir einhliða fyrirvarar sem ríkisstjórnin hyggst setja við innleiðingu orkupakkans hér skapa því lagalega óvissu og áhættu fyrir ríkið.
Vakin var athygli á þessari óvissu í álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og þar er líka bent á áhættu vegna mögulegra samningsbrotamála og erfiða stöðu Íslands við þær aðstæður. Við teljum nauðsynlegt að þessi óvissa og áhætta verði greind nánar áður en Alþingi tekur afstöðu til orkupakkans.
Einu undanþágurnar frá ákvæðum EES samningsins sem hafa lagalegt gildi, fást hjá sameiginlegu EES-nefndinni. Yfirlýsingar embættismanna ESB og EFTA ríkjanna um að Ísland sé enn ótengt orkumarkaði ESB hafa enga lagalega þýðingu og skerða ekki möguleika hagsmunaaðila til að leita réttar síns.
Að okkar mati ber Alþingi að fresta ákvörðun um orkupakkann þar til þessi lagalega óvissa og áhætta hefur verið könnuð til hlítar.“