- Advertisement -

Logandi ófriður í Vesturbyggð

Fráfarandi bæjarleiðtogi segist slást við þvætting og þvælu og vill útiloka fólk frá Facebook.

Nýtt framboð vann meirihluta í bæjarstjórn Vesturbyggðar. Sjálfstæðisflokkurinn hafði stjórnað einn í fjögur ár, þar sem flokkurinn var einn í framboði 2014.

Fráfarandi forseti bæjarstjórnar, Fríða Matthíasdóttir, gengur ekki sátt frá borði.

Hún hefur sent frá sér hugsanir sínar þar sem hún leynir vonbrigðum sínum hvergi.

Bréf Fríðu er svohljóðandi:

„Niðurstaða kosninganna í Vesturbyggð var ekki eins og ég hefði helst viljað. Ný-Sýn tekur við og mun stýra sveitarfélaginu næstu 4 árin.

Ég fer þó stolt og sátt frá borði. Við skilum góðu búi í þeirra hendur. Ég óska þeim alls velfarnaðar í sínum störfum.

Fjandmenn okkar hafa hins vegar lagst svo lágt að reyna að mála dökka mynd af fjárhag sveitarfélagsins og reynt að sverta allt okkar starf. Jafnvel ráðist á okkar frábæru stofnanir með skrifum sínum á vettvangi facebook í aðdraganda kosninga. Framsetningin þvílíkur þvættingur og þvæla að ég taldi það ekki svaravert. Ég vona og reyndar veit að allir vinir mínir á þessum vettvangi vita betur og því bið ég ykkur kæru vinir að hjálpa okkur að láta fjarlægja fólk af facebook sem er fullt af ranghugmyndum og hefur engan annan tilgang í lífinu en að ata fólki aur og skítkasti falið bak við tölvuna sína.

En aftur að hugleiðingu dagsins. Það hefur verið ótrúlega krefjandi verkefni að taka þátt í að byggja upp samfélag í vexti. Gríðarlegur tími hefur farið í að sinna málefnum sveitarfélagins og hef ég lagt mig alla fram við það verkefni. Nú tekur annað fólk við því.

Ég horfi bjartsýn fram á veginn! Það tekur við nýtt og spennandi tímabil í mínu lífi, ég fæ allt í einu fullt af frítíma sem ég veit ekkert hvað ég á að gera við. Auglýsi hér með eftir hugmyndum.“

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: