„Ég verð að viðurkenna að mig langaði helst að hringa mig undir sæng við lestur nýútgefinnar skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Yfir 100 vísindamenn frá 80 löndum komu að skýrslunni. Lesturinn er auðvitað sláandi og jafnvel lamandi,“ sagði Logi Einarsson á Alþingi.
„Eins freistandi og það er að leggja árar í bát er ekkert annað í stöðunni en að mannkynið setji sér enn metnaðarfyllri markmið og fylgi þeim eftir með enn róttækari aðgerðum. Ég vonaðist til að hæstv. forsætisráðherra myndi kynna metnaðarfyllri aðgerðir af Íslands hálfu á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna sem fram fór á mánudag, skipa Íslandi í framvarðarsveit í baráttunni gegn loftslagsvánni, en því miður missti hún af því tækifæri. Fáar þjóðir ættu að vera meðvitaðri en Íslendingar um mikilvægi hafsins og það eru sár vonbrigði að við ráðumst ekki í metnaðarfyllri rannsóknir og aðgerðir þegar kemur að því. Hafið er að súrna og hitna. Sjávarhitabylgjur eru að drepa kóralrif, þaraskóga og aðrar mikilvægar örverur. Heilu vistkerfunum er ógnað, þau eru jafnvel að deyja.“
Hann hélt áfram: „Hamfarahlýnun er ekki fjarlæg ógn við framtíðarkynslóðir, ekki einu sinni rétt handan hornsins. Nú þegar er fólk farið að missa heimili sitt, atvinnu og jafnvel tapa lífinu sjálfu — kannski ekki hér á Íslandi, ekki enn, en áhrifin eru okkur alveg augljós. Þetta er sameiginlegt verkefni alls mannkyns og við, ríkari þjóðirnar, getum ekki látið undir höfuð leggjast að ganga á undan með góðu fordæmi.“
Logi: „Hér duga engar smáskammtalækningar. Við getum ekki komið í veg fyrir þessar hamfarir án þess að gera grundvallarbreytingar á hagkerfum heimsins. Við þurfum að bregðast við strax, annars munum við tapa í þessu kapphlaupi.“