Guðmundur Ingi:
„Þetta er grafalvarlegt mál vegna þess að þarna er verið hreinlega að hóta því að ef allar upplýsingar séu ekki til staðar þá verður viðkomandi maki tekjulaus.“
„Það er mat flutningsmanna frumvarpsins að núgildandi ákvæði laganna um upplýsingaskyldu og eftirlitsheimildir gangi of langt í skerðingu á friðhelgi einkalífs umsækjenda og greiðsluþega og rétti til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli og atvinnuleysis,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson. Flokki fólksins, þegar hann mælti frumvarpi um breytingar á lögum um almannatryggingar. „Það er með ólíkindum að svona lög hafi yfir höfuð verið samþykkt á Alþingi á sínum tíma, alveg stórfurðulegt. Hitt sem er enn furðulegra er að þessi lagaákvæði skuli enn þá vera í gildi því að þau, og ég er alveg sannfærður um það, brjóta ekki bara á mannréttindum viðkomandi heldur eru þau líka brot á persónuverndarlögum sem er búið að samþykkja og geta aldrei staðist þá skoðun,“ sagði hann einnig.
„Þetta er grafalvarlegt mál vegna þess að þarna er verið hreinlega að hóta því að ef allar upplýsingar séu ekki til staðar þá verður viðkomandi maki tekjulaus. Það er með ólíkindum að það skuli vera sett í hendur þess aðila sem sækir um örorkubætur að maki komi og gefi upplýsingar um allt sem varðar meðferð málsins. Við vitum að það gæti þess vegna verið skilnaður í gangi og hvað þá? Hvernig í ósköpunum á í slíku tilfelli að þvinga maka og skerða réttindi þess sem sækir um? Þetta er eiginlega bara sorglegt og ég vona svo heitt og innilega að þetta mál komist alla leið og þessi ákvæði verði tekin út eins og lagt er til í frumvarpinu,“ sagði Guðmundur Ingi.
„Þegar þessi lög voru sett á sínum tíma voru svik bótaþega eitt af því sem var notað sem rökstuðningur með þeim. Þar af leiðandi voru þeir spyrtir saman við maka og alls konar svik og tölur um svikaupphæðir voru skuggalegar sem komu þar fram. Síðan kom í ljós að þær voru byggðar á kolröngum upplýsingum, yfirfærðar ranglega á íslenska örorkuþega og þegar upp var staðið voru einu svikin sem fundust þau sem komu eiginlega örorkulífeyrisþegum ekkert við. Þetta var nefnilega notað sem afsökun til að koma þessum ólögum á. Það er þjóðþrifamál að taka svona óskapnað úr lögum þar sem er verið að brjóta á réttindum fólks; mannréttindum og persónuverndarréttindum. Okkur ber skylda til að sjá til þess að í lögum sé ekki neitt sem getur valdið fólki tjóni og tekið af þeim réttindi, persónuverndaréttindi og eða mannréttindi. Meðan þessi heimild stendur í lögunum, að taka maka viðkomandi með, er í lögum heimild til að brjóta á persónuverndarréttindum og mannréttindum. Þess vegna vona ég að þetta mál fái góða meðferð hjá velferðarnefnd og fari í gegnum þingið. Þetta er bara eitt af mörgu sem þarf að laga í almannatryggingalögunum, eitt skref í átt að því að bæta lögin og alls ekki það síðasta,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson.