Loftslagsmál: Þau líti í eigin barm
Valdimar Össurarson frumkvöðull skrifar merka grein í Mogga dagsins. Þar rekur hann eigin raunasögu, þó bara að hluta, segir af nógu að taka.
„Ráðherrar hafa verið yfirlýsingaglaðir í loftslagsmálum og látið að því liggja að hér sé allt gert til að Ísland verði í fararbroddi heimsríkja. Fréttamiðlar halda þessum yfirlýsingum ráðamanna á lofti en enginn rannsakar efndirnar eða raunverulega stöðu. Raunveruleikinn blasir allt öðruvísi við þeim sem vinna að verkefnum á þessu sviði og standa utan samtryggingar stofnanasamfélagsins, eins og hér verður lítillega reifað,“ skrifar Valdimar.
„Síðastliðinn áratug hef ég unnið að þróun hverfils sem nýst getur til orkuvinnslu úr sjávarföllum. Þessi íslenski hverfill hefur allmikla sérstöðu á heimsvísu; einkum þá að hann getur unnið orku úr algengum sjávarfallastraumi, t.d. í annnesjaröstum, meðan aðrir þróunaraðilar beina sjónum sínum að hröðum orkuríkum straumum í sundum, sem eru mun sjaldgæfari. Hin dreifða orka hægstraums kallar á stóra einfalda og ódýra hverfla, sem byggjast á algerlega nýrri tækni.“
Þrátt fyrir skýr loforð í stjórnarsáttmála um fjárveitingar til loftslagsverkefna; þrátt fyrir ótvíræðar skuldbindingar okkar í loftslagsmálum og þrátt fyrir að þetta verkefni hafi í hvívetna staðið undir öllum áætlunum og væntingum hefur það mátt búa við fjársvelti að hálfu „stuðningsumhverfis nýsköpunar“. Vissulega hafa öðru hvoru fengist styrkir, en án allrar samfellu og alls ónógir.“
Síðan telur hann upp staðreyndir:
Margt mætti nefna þessu til rökstuðnings; m.a. þetta:
1. Órökstuddar synjanir Tækniþróunarsjóðs, en stefna hans er mótuð af ráðherrum og tekur ekki tillit til Parísarsáttmálans.
2. Niðurlagning styrkja Orkusjóðs til tækniþróunarverkefna, með lagabreytingu 2014.
3. Loftslagssjóður er enn ekkert nema nafnið. Sama er um markáætlun á sviði loftslagstækni.
4. Andúð atvinnuvegaráðuneytisins birtist m.a. í skýrslu þess til Alþingis á síðasta vetri um nýja orkukosti. Þar er ósannindum beitt til að gera lítið úr sjávarorkutækni og verkefnum Valorku.
5. Kadeco, sem heyrir undir fjármálaráðuneytið, lokaði nýlega frumkvöðlamiðstöðinni Eldey og rak frumkvöðla á dyr, m.a. Valorku.
6. Forsætisráðherra svarar ekki erindum; m.a. tveggja ára beiðni um viðtal. Margt fleira mætti nefna af slíku tagi.
Loftslagsmál eru meginviðfangsefni heimsríkja í dag. Forsætisráðherra sagði norrænum samstarfsráðherrum nýlega að orðum þyrftu að fylgja athafnir. Ég skora á hana að líta í eigin rann og bjóða strax upp á raunverulegan stuðning við þá sem vilja leggja sitt af mörkum til nýrrar orkutækni.