Samfélag Ellert B. Schram, fyrrverandi alþingismaður, ritstjóri ásamt fleiru,skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðið. Þar fjallar hann um neitun stjórnarmeirihlutans á að lifeyrir aldraðra og öryrkja verði afturvirkur, rétt einsog almennt var með laun.
„Rökstuðningur meirihlutans var í aðalatriðum sá, að vel hafi verið gert við ellilífeyrisþega, frá því að núverandi ríkisstjórn tók við, að lög kveði á um, hvernig reiknaðar skulu út tryggingabætur og ellilífeyrir hafi hækkað um 3%, um síðustu áramót, umfram það sem aðrir fengu,“ skrifar Ellert meðal annars.
Eldra glímir við fátækt
„Þetta er löðurmannlegur málflutningur, fyrirsláttur og afneitun gagnvart þeirri einföldu staðreynd, að samfélagið er með þessari afgreiðslu Alþingis að horfast í augu við þá niðurstöðu, að eldra fólk eigi ekki annað skilið en að glíma við fátækt.
Upplýsingar frá innanríkisráðuneytinu og Almannatryggingum hafa leitt í ljós að fjögur þúsund eldri borgarar hafa minna en tvö hundruð þúsund krónur á mánuði til að framfleyta sér. Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að ellilífeyrir hækki um 9,6% frá næstu áramótum, ca tuttugu þúsund krónur, mínus skattur. Við það stendur. Við þá skömm stendur.“
Enginn hafði manndóm
Í lok greinarinnnar segir Ellert:
„Ég leyfi mér enn að trúa því að það sé ekki mannvonska sem veldur því að meirihluti Alþingis fellir tillögu um útborgun lífeyrisbóta. Það er hins vegar pólitík af verstu sort. Á bak við þetta er fólk sem hefur allt sitt vit úr Excel-skjölum, prósentureikningi og pólitískum samanburði. Og svo kemur hjörðin á eftir og réttir upp hendurnar þegar henni er skipað. Það hafði enginn alþingismaður úr stjórnarliðinu manndóm í sér til að greiða atkvæði með réttlætinu. Þetta er sorgleg staðreynd, hinn aumi blettur stjórnmálanna. Lýsandi dæmi um ósjálfbjarga og hollustusjúka meðreiðarsveina valdsins. Meira gæti ég sagt.
Þessi hörmulega epísóda er áminning til okkar allra, á hvaða aldri sem við erum, að jafnrétti og jöfnuður, samkennd og mannúð eiga enn erindi inn á hinn pólitíska vettvang. Og þar er verk að vinna.“