Löðrandi vitleysa í bæjarstjóra Akureyrar
Ragnar Þór Pétursson skrifaði:
Nú ætla ég að koma með játningu. Ég hef alltaf verið stoltur af því að vera Akureyringur. Akureyri er bærinn minn. Hún er falleg og minningabankinn er hlaðinn hamingju. Það er eitthvað innra með mér sem togar mig alltaf norður. En… ofsalega hef ég mikla skömm á þeim hroka sem birtist t.d. í ummælum bæjarstjórans um að eitthvað í eðli bæjarbúa hafi varið þá betur gegn veirunni en fólk á Höfuðborgarsvæðinu. Svona löðrandi vitleysa, sem auðvitað sprettur af minnimáttarkennd og heimóttarskap, heggur reglulega djúp skörð í upprunastoltið.