Leiðari Skyndileg uppgvötun Framsóknar á að 32 þingmenn séu minnsti hugsanlegur meirihluti er ótrúverðug. Og sennilega ekki ástæða þess að Framsókn hætti í stjórnarmyndunarviðræðunum. Líklegra er að Framsókn hafi allan tímann siglt undir fölsku flaggi. Ætlað sér eitthvað allt annað.
„Samtöl við Sigurð Inga Jóhannsson verða helst skilin þannig að hann telji hugsanlegt að flokkur hans endi með forsætisráðuneytið í nýrri ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Vinstri-grænum. Auðvitað skal ekki útiloka neitt í stjórnmálum, en þetta er ólíklegt.“
Þannig skrifar Davíð Oddsson í leiðara í dag. Davíð er ekki einn um þessa skoðun. Alls er óvíst að Framsókn eigi sæti í næstu ríkisstjórn. Flokkurinn hefur sýnt af sér vafasama framgöngu á síðustu dögum. Staða Framsóknar væri önnur og traustari hefði flokkurinn hafnað þátttökunni fyrr, en ekki dregið það fram á síðustu stundu.
Ef skýring Framsóknar er rétt þá blekkti flokkurinn þau sem funduðu með honum hvern dag og þá um leið þjóðina og jafnvel forseta Íslands. Þetta var ljótur leikur. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur haft ímynd trausta mannsins. Hann hefur bruðlað allri þeirri innistæðu. Eftir stendur ótrúverðugur formaður í ótrúverðugum flokki.
Sigurjón M. Egilsson.