Ritstjóri Moggans gerir sér mat úr flestu sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og annar varaforseti ASÍ, segir eða skrifar. Allt gert í tilraunum til að draga persónu hennar niður. Sem er vita vonlaust verk.
„Nú kann að vera að fólk sem starfar með Sólveigu Önnu sé fyrir löngu hætt að veita því athygli hvernig hún talar um menn og málefni og kippi sér þess vegna ekkert upp við svo fáheyrð og ósvífin ummæli,“ segir i Staksteinum dagsins.
Davíð saknar fyrri forystu í verkalýðshreyfingunni. „Umræðan var á hærra plani áður fyrr, sagði Lára V. Júlíusdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, þegar hún var spurð út í ummæli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar og 2. varaformanns ASÍ.“
Davíð bendir réttilega á að Sólveig Anna gegnir ábyrgðarstöðum, bæði innan Eflingar og innan ASÍ. Svo kemur að mergi málsins. Hert sókn auðvaldsins í lífeyrissjóðina þar sem nú verandi forysta launafólks flækist fyrir:
„Þvert á móti hefur Sólveig Anna bætt um betur og tekið undir með Ragnari Þór Ingólfssyni að lífeyrissjóðina eigi að nota í pólitískum tilgangi og að misbeiting þeirra gegn Icelandair sé sjálfsögð. Hún orðar það á sinn máta og segir að það sé „úrkynjun að skilja það ekki“.“
Von launafólks er að þau standi vaktina og geri allt sem þau geta til að koma í veg fyrir að ævisparnaður alþýðunnar verði notaður í brask. Bæði Sólveig Anna og Ragnar Þór hirða ekkert um að komast ekki í hóp „fyrirmenna“ sem er það mesta sem hægt er að ná að mati ritstjórans. Ritsjóra sem virðist fyrirlíta Sólveigu Önnu.