Ljósmæður boða aukna hörku
Ljósmæður fá gylliboð frá öðrum löndum. „Ég hef hreinlega áhyggjur af þróun stéttarinnar.“
Gerðardómur kom ljósmæðrum á óvart og hann gerði ekki annað en herða þær til frekari átaka. Sem verða næsta vor, að óbreyttu.
Moggin er með viðtal við Katrínu Sif Sigurgeirsdóttur, formann samninganefndar ljósmæðra. Í máli hennar leynir sér ekki hversu mikil alvara er í málinu.
„Þetta er sem betur fer skammtímasamningur enda lítið innihald í honum. Maður trúði ekki öðru en að gerðardómurinn yrði sanngjarn í sínum úrskurði en þar sem hann virðir kröfu okkar að vettugi erum við ekki að fara í jafn rólega og hógværa samningagerð og við áttum von á. Það verður því að vera meiri harka og við þurfum að beita öllum leiðum sem við mögulega getum til að halda lífi í stéttinni og halda þeim sem eftir eru, það verður verðugt verkefni. Ég hef hreinlega áhyggjur af þróun stéttarinnar,“ segir hún við Moggann.
Og það er ekki allt: Katrín Sif segir mikinn fólksflótta hafa átt sér stað í stéttinni á undanförnum mánuðum sem sjái ekki fyrir endann á. „Það er verið að bjóða ljósmæðrum mjög vel í öðrum löndum og við fáum reglulega gylliboð frá t.d. Bretlandi og Svíþjóð þar sem vantar mikið ljósmæður.“