Utanríkismál „Það er augljóst að mínu mati, að Evrópusambandið ætlar að hægja á sínu ferli og ekki stækka sambandið á næstu fimm árum. Ég held að það geti orðið lengri tími, það eru ýmis vandamál sem Junker ætlar að einbeita sér að á þessum tíma, sem ég held að verði ekki leyst á svo stuttum tíma. Ríkisstjórn Íslands ætlar ekki að ganga í Evrópusambandið, hún ætlar ekki að halda viðræðunum áfram, þannig að mér þykir augljóst að þetta sé í raun búið fyrir Ísland, að standa í þessu,“ sagði utanríkisráðherrann Gunnar Bragi Sveinsson, í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Hann var spurður hvort ekki sé réttast að við kjósum um framhaldið.
„Við höfum alltaf sagt að verði viðræður hafnar á ný, þá munum við spyrja þjóðina hvort hún vilji halda viðræðunum áfram. Það er sú atkvæðagreiðsla sem við höfum lofað og þessir tveir flokkar sömdu um í sínum stjórnarsáttmála.“
Þjóðin var spurð
Þá var hann spurður hvort hann muni leggja fyrir Alþingi í haust að slíta aðildarviðræðunum.
„Ég vil nota tímann fram að þingi til að velta því fyrir mér og ræða það þá í ríkisstjórn hvort þörf verði á því eftir þetta sem á undan er gengið núna. Ég hef orðað þannig, að það sé litið eftir af þessu ferli, annar en sá formlegi status hefur um okkur í sínum bókum. Við lítum ekki á okkur sem umsóknarríki, íslenska ríkisstjórnin. Og við höfum komið þeim skilaboðum skýrt á framfæri við fulltrúa Evrópusambandsins.“
Má ekki halda málinu opnu, hafi næsta ríkisstjórn vilja til að halda áfram?
„Eftir þetta kjörtímabil verðum við þá búin að vera að þjarka í Evrópusambandinu í níu ár og ekkert hefur gerst. Ég held að það sé miklu bera að hafa þetta bara alveg á hreinu, að þessi formlegi status sem Evrópusambandið vill hafa okkur í, fari af, þrátt fyrir vilja ríkisstjórnarinnar og yfirlýsingar, um að hún ætli ekki að semja á þessum tíma. Gefa síðan þjóðinni tækifæri þegar vilji er til að fara inn, hvenær sem það verður. Til þess þarf að kjósa. Gleymum því ekki, þjóðin var aldeilis spurð hvort hún vildi fara í þessa vegferð.“
Aldrei staðið við öll kosningaloforð
En þjóðinni var lofað að hún spurð á þessu kjörtímabili?
„Var því lofað? Það sem þessir tveir flokkar sömdu um var að setja viðræðurnar á ís. Skoða málið. Við komumst að því að það er ekkert þarna inn að sækja. Við hinsvegar lofuðum þjóðinni því að það yrði kosið ef við myndum hefja viðræður á ný. Það var það sem við lofuðum og sögðum. Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn ferkar þreyttur á þessu máli, það er svo mikið að gerast í heiminum, miklu áhugaverðara og skemmtilegar fyrir Ísland. En hér eru margir fastir í þessu máli.“
Snýst þetta ekki líka um kosningaloforð?
„Gerir það það? Kosningaloforð hverra. Nú er það þannig að þegar að landsfundasamþykktir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru lesnar sést að báðir flokkar eru á því að við eigum ekki að vera í Evrópusambandinu. Menn fara í kosningabaráttu og setja fram allskonar stefnur, það gera Framsóknarmenn líka, svo setjast tveir, þrír flokkar niður og semja um niðurstöður kosninganna, um að hverju þeir ætla að vinna. Þá er það ekki þannig að við semjum um allt sem við sögðum. Ég held að það hafi aldrei gerst að þegar tveir flokkar semja að allt sem var lofað fyrir kosningar sé inn í sáttmála ríkisstjórna. Menn vissu það þó, að þessir tveir flokkar eru á móti að ganga í Evrópusambandið, það lá alltaf fyrir.“