9200 fjölskyldur voru sviptar húsnæði sínu og hraktar út á götu svo selja mætti íbúðirnar á endanum til Heimavalla og Gamma eða til þeirra sem vildu græða á ferðamannastraumnum.
Þessar fjölskyldur bera enn kostnaðinn við húsnæðiskreppuna, greiða húsnæðiskreppuskatt til leigusala sinna um hver mánaðamót. Miðað við skráðar hækkanir á undanförnum árum (en gera má ráð fyrir að þeir leigusamningar sem hefur ekki verið þinglýst hafi hækkað enn meira) er hver leiguíbúð í dag um 80 þús. kr. dýrari en var við upphaf húsnæðiskreppunnar.
Þessar 9200 fjölskyldur greiða því um hver mánaðamót 735 m.kr. vegna grimmrar stefnu stjórnvalda ríkis og bæjar, stjórnvalda sem tóku hagnaðarvon hinna ríku fram yfir þörf hinna verr settu fyrir húsaskjól. Þetta gera um 8,8 milljarðar króna á ári.
Þessu til viðbótar komu síðan um 5000 innflytjendur og um 5000 ungir einstaklingar og pör sem þurfa að fara út á bólgin húsnæðismarkaðinn og urðu þar fórnarlömb þeirra sem veigra sér ekki við að græða á þeim sem geta ekki varið sig.
Ef við ætlum aukakostnað þessara hópa helming af hinum fyrri (hlutfallslega fleiri einstaklingar) þá bætast um 4,8 milljarðar króna við kostnað almennings vegna húsnæðiskreppunnar, sem verður þá gróft reiknaður 13,6 milljarðar króna á hverju ári.
Við eigum ekki að horfa til þess hvað það kostar að leysa húsnæðiskreppuna heldur hvað það kostar að gera það ekki. Það er hið rétta sjónarhorn almennings, hann ber kostnaðinn nú þegar.
Með opinberum aðgerðum til að leysa húsnæðiskreppuna erum við að lækka kostnað almennings vegna hennar. Með því að leysa ekki húsnæðisvanda þeirra sem eiga minna þá opnum við hins vegar fyrir flóðgáttir peningastreymis frá þeim sem eiga lítið til þeirra sem eiga mikið og vilja meira. Og þessi flóðgátt, tækifæri hinna best settu til að blóðmjólka hina verst settu, er jafnframt ástæða þess að ekkert er gert til að leysa vandann.
Þau sem far með völdin í samfélaginu líta á lausn húsnæðiskreppunnar líta ekki á húsnæðiskreppuna sem vanda heldur tækifæri til að græða enn meira. Út á það gengur kapítalisminn. Að hin betur settu geti grætt meira á hinum verr stæðu.
Gunnar Smári Egilsson.