Listasafn Íslands opnaði á 130 ára afmæli sínu þann 16.október nýja undirdeild, Vasulka-Stofu, og mun hún hýsa gagnasafn vídeólistamannanna, Steinu og Woody Vasulka. Vasulka-Stofa verður jafnframt miðstöð rafmiðlalista á Íslandi.
Steina Vasulka og maður hennar Woody dvöldu í byrjun árs í fræðimannsíbúð Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Steina var hér á landi til að kynna sér handritin í safni Árnastofnunar og myndefni þeirra til að fá innblástur í list sína. Steina fæddist í Reykjavík og lærði klassíska tónlist og fékk námsstyrk til að fara á listaskóla í Prag árið 1959. Þar kynntist hún manni sínum Woody Vasulka. Steina og Woody fluttu til New York borgar árið 1965 og voru þar brautryðjendur í vídólist sem þau sýndu í Whitney safninu. Frá árinu 1980 hafa þau búið í Santa Fe í Nýju Mexíkó.