- Advertisement -

Lilja verður formaður Framsóknar

- aðeins spurning hvenær það verður. Eina leiðin til að græða djúp sár í flokknum. Nýtur trausts beggja hópanna.

Fréttaskýring Einungis er óvíst hvenær Lilja Dögg Alfreðsdóttir verður formaður Framsóknarflokksins. Ekki hvort hún verði formaður. Andinn innan flokksins er nánast óbærilegur þar sem tvær andstæðar fylkingar standa hver gegn annarri. Lilja nýtur stuðnings beggja vegna víglínunnar.

Önnur fylkingin styður Sigurð Inga Jóhannsson, núverandi formann Framsóknarflokksins, og hin styður Sigmund Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi formann. Milli þeirra tveggja er mikil og djúp gjá. Þeir kenna hvor öðrum um hvernig komið er fyrir flokknum.

Skorað á Lilju Dögg

Gunnar Bragi Sveinsson, sem er dyggur stuðningsmaður Sigmundar Davíðs, lýsti ástandinu ágætlega í Svarfugli. Þar sagði hann flokkinn vera áhrifalausan í íslenskum stjórnmálum og langt væri milli deilenda innan flokksins. Gunnar Bragi segist helst vilja að Sigmundur Davíð verði formaður á ný, en sagði hans tíma ekki kominn og Gunnar Bragi Sveinsson hefur því skorað á Lilju Dögg að gefa kost á sér til formanns. Lilja er sitjandi varaformaður Framsóknarflokksins. Hvað varðar Sigmund Davíð, sagði Gunnar Bragi í Svartfugli, að endurkoma hans í formannsstóli nú, yrði ekki til að bæta ástandið innan flokksins.

Auk Gunnars Braga eru Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi þingmaður og Guðfinna J. Guðmundsdóttir borgarfulltrúi meðal hörðustu stuðningsmanna formannsins fyrrverandi.

Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð.
Átökin milli þeirra hafa skaðað Framsóknarflokkinn.

Vonbrigði með Sigmund Davíð

Af samtölum við þáverandi þingmenn og núverandi er ljóst að endurkoma Sigmundar Davíðs, síðastliðið haust, eftir sumarhlé vegna Wintrismálsins, olli þeim miklum vonbrigðum. Þegar hann byrjaði sjónvarpskappræður, vegna þingkosninganna, með því að halda áfram þar sem frá var horfið, í stað þess að tala um framtíðina, og jafnvel biðjast afsökunar á framgöngu sinni í apríl í fyrra. Það er afsagnarinnar og þar áður vegna Kastljóssþáttarins og erindisleysunnar á Bessastaði.

Þingmenn segja að þá hafi verið ljóst að kjósa yrði nýjan formann. Með öllu hefði verið ófært að Framsóknarflokkurinn yrði áfram bundinn Sigmundi Davíð á þeirri vegferð sem hann kaus að vera á.

Bara önnur fylkingin berst

Gunnar Bragi sagði, í Svartfugli, að ekki sé deilt um málefni innan flokksins. Heldur um persónur. Önnur fylkingin getur ekki starfað áfram undir formennsku Sigurðar Inga og hin alls ekki undir formennsku Sigmundar Davíðs.

„Ég hef ekki séð stríðandi fylkingar, ég hef séð hóp sem kemur fram í fjölmiðlum og vega að mér og óskilgreindri forystu. Ég sé enga takast á við það fólk,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson í viðtali við Lindu Blöndal í Þjóðbraut á Hringbraut. Sigurður Ingi segir andstæðinga sína innan flokksins eiga erfitt með að sættast á lýðræðislegu niðurstöðu sem varð í formannskjörinu, þegar hann bar sigurorð af Sigmundi Davíð og felldi hann þar með af formannsstóli.

Lilja Alfreðsdóttir. Hún á enga aðra leið en í formennsku Framsóknarflokksins.

 

Hvað gerir Lilja Dögg

Báðar fylkingar geta starfað undir forystu Lilja Daggar. Nú er beðið hvað hún gerir. Víst er að hún fer ekki of fljótt af stað. Hún nýtur föður síns, Alfreðs Þorsteinssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa, sem þykir manna fremstur í pólitískum leikjabrögðum, eða öðru nafni; plotti. Það sést vel á því hversu sterkur Framsóknarflokkurinn var allan tímann í samstarfinu í R-listanum í Reykjavík. Staða Framsóknarflokksins þótti alltaf vera mun sterkari þar en pólitísk staða flokksins meðal kjósenda.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir hefur ekki verið lengi beinn þátttakandi í stjórnmálum. Hún hefur heillað Framsóknarmenn sem og marga pólitíska andstæðinga sína. Enginn efast um hæfi hennar og gáfur. Lilja hefur, enn sem komið er, einungis komið við á fyrsta farrými stjórnmálanna. Varð ráðherra án þess að hafa verið kjörin á þing, varð varaformaður og þingmaður án baráttu og þannig hefur hún fengið margt.

Nú þarf hún að stíga fram. Hún ein er sögð geta slökkt ófriðarbálin í Framsókn. Hún á ekkert val. Ábyrgð fylgir því að vera samnefnari og eina leiðin til friðar í elsta stjórnmálaflokki Íslands. Lilja á í raun enga aðra leið en segja já og hún verður formaður Framsóknarflokksins. Við það mun ásýnd flokksins. En hvenær verður þetta? Fyrr en seinna.

Sigurjón M. Egilsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: