Stjórnmál Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur rekið sig illilega á. Hún vill eflaust lækka virðisaukaskatt á bækur. Ástæðulaust er að efast um það. Ekkert slíkt verður gert nema Bjarni Benediktsson heimili það. Bjarni ræður. Sennilega eru bækur ekki ofarlega í huga fjármálaráðherrans. Hann gerir stöðu Lilju menntamálaráðherra vandræðalega. Og hefur kannski gaman af.
Af veikum mætti segir Lilja í Mogganum að hún sé nokkuð viss um að skatturinn verði lækkaður á næsta ári. Og meira en það, hún segist þar viss um að sama verði um virðisaukaskatt á fj-lmiðlla og tónlist. Lilja ræður þess ekki. Það gerir hins vegar Bjarni.
Mogginn rifjar upp: „Afnám bókaskatts mun ekki taka gildi í upphafi fjárlagaársins 2018 þrátt fyrir að þingmenn allra flokka á Alþingi hafi lagt fram sameiginlegt frumvarp þess efnis þann 26. september síðastliðinn. Núverandi menntamálaráðherra var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.“
Þingmenn og þingflokkar ráða ekki Íslandi. Það gerir Bjarni Benediktsson.
„Þetta stendur í stjórnarsáttmálanum og það verður fyrsta skrefið sem við tökum varðandi breytingar á virðisaukaskattinum, að fella niður skattinn á bókum,“ sagði Lilja í samtali við Morgunblaðið í gær, greinilega vonsvikin yfir afstöðu þess sem öllu ræður.
-sme