- Advertisement -

Lilja Rafney: Ekki meiri kvótasetningu og einkavæðingu á vakt Vinstri grænna

Margir bíða þó spenntir eftir að koma heimildum í verð og selja sig út úr greininni með tilheyrandi samþjöppun til hendur fárra ríkra.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem nú er varaþingmaður VG, var í áraraðir sá þingmaður flokksins sem lét sig sjávarútveg mestu skipta. Var til að mynda formaður atvinnuveganefndar Alþingis. Lilja Rafney vakti athygli fyrir baráttu sína. Nú virðist henni vera nóg boðið um stefnubreytingu flokksins. Lilja Rafney skrifaði á Vísi grein um breytt viðhorf Vinstri grænna.

„Ekkert í stjórnarsáttmálanum kveður á um kvótasetningu í fiskveiðistjórnarkerfinu og skýtur því skökku við að búið sé að kvótasetja sandkola og hryggleysingja nú þegar með framsali og nú stendur til að kvótasetja grásleppu með framsali. Þingflokkur VG á síðasta kjörtímabili lagðist alfarið á móti samskonar áformum með rökstuðningi um að ekki væri hægt að byggja á neinum rannsóknum sem styddu kvótasetningu og sýndi fram á að ekki væri hægt að byggja á annarskonar veiðistjórnun sem fæli ekki í sér samþjöppun og framsal,“ segir Lilja Rafney í upphafi greinar sinnar.

Ljóst er að henni þykir eftirgjöf núna vera vonda kúvendingu eigin flokks.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…ekki er þörf á að kvótasetja grásleppuna…

„Á undanförnum árum, utan eins, hafa veiðar í grásleppu ekki náð ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um heildarafla. Úr þessu má einmitt lesa að ekki er þörf á að kvótasetja grásleppuna þar sem ekki er um ofveiði að ræða og því engin fiskifræðileg rök sem liggja fyrir! Heldur þarf að vera vakandi yfir núverandi kerfi sem hefur virkað, en mætti laga eins og smábátasjómenn og LS hafa bent á og barist fyrir nema kannski þeir sem vilja selja heimildir sínar og hætta og hafa haldið að sér höndum og er það líka skýringin á lítilli nýliðun í greininni.

Ef kvótasetning verður að lögum þá mun þessi kvóti ganga í erfðir, verða góð söluvara fyrir einhverja útvalda og valda mikilli samþjöppun heimilda eins og reynslan er af allri kvótasetningu til þessa. Fjöldi aðila sem hafa verið að fjárfesta í bátum og búnaði til Hrognkelsaveiða fengju lítinn kvóta sem ekki stæði undir veiðum og yrðu að hætta. Margir bíða þó spenntir eftir að koma heimildum í verð og selja sig út úr greininni með tilheyrandi samþjöppun til hendur fárra ríkra eins og við þekkjum úr Kvótakerfinu og Verbúðin sýndi okkur þá vegferð svart á hvítu,“ skrifar baráttukonan Lilja Rafney. Hún hætti ekki hér. Lesum:

Hver er þá munurinn á því að krefjast næst kvótasetningar?

Það tveggja prósenta þak sem boðað er í frumvarpinu og svæðaskipting mun ekki halda vatni því stóru útgerðirnar leika sér að því að fara fram hjá því sbr. kvótaþakið í stóra kerfinu sem hefur ekki haldið og auðvelt að stofna bara fleiri félög þar sem hentar. Menn ættu að vera orðnir reynslunni ríkari af kvótasetningu og neikvæðum áhrifum á byggðirnar. Núverandi Strandveiðikerfi var sett á fót af Vinstri grænum í kjölfar álits Mannréttindanefndar SÞ um atvinnufrelsi og náði það einnig til atvinnufrelsis þeirra sem stunda Hrognkelsaveiða !

Hrognkelsaveiðar eru hluti af félagslegakerfinu í fiskveiðistjórnun og þegar samþjöppun og kvótabrask byrjar þar þá fara þeir sem selja kvóta í grásleppu á fullu inn í strandveiðarnar og þar verður þá enn minna til skiptana. Hver er þá munurinn á því að krefjast næst kvótasetningar í því kerfi til hagræðingar með næstu ríkisstjórn? Kvótaútvegsspilið hefur ekki sungið sitt síðasta. Ekki meiri kvótasetninga og einkavæðingu á sameiginlegri fiskveiði auðlind á vakt VG!“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: