- Advertisement -

Lilja Rafney berst gegn Svandísi

„Nú er skellt í lás og fleiri hundruð manns gerðar atvinnulaus með tilheyrandi afleiðingum fyrir fólkið og sjávarbyggðirnar!“

Lilja Rafney Magnúsdóttir.

„Ég stend því heilshugar með baráttu strandveiðisjómanna nú sem fyrr og vona að sem flestir leggist á árar með þeim í baráttunni fyrir réttlátum skerfi af sameiginlegri sjávarauðlind þjóðarinnar!“

Þannig endar Lilja Rafney Magnúsdóttir, fyrrum þingkona Vinstri grænna, og nú varaþingmaður, grein sem hún skrifaði á dv.is. Lilja Rafney var formaður atvinnuveganefndar Alþingis á síðasta kjörtímabili.

Lilja Rafney rifjar upp að það var sjávarútvegsráðherra Vg, Jón Bjarnason, sem kom strandveiðunum á.

svíður það sárt að horfa upp á getu- og viljaleysið við að tryggja aflaheimildir í 48 daga

„Mér, sem leiddi þá þverpólitísku vinnu á síðasta kjörtímabili að endurskoða strandveiðikerfið með það að leiðarljósi að auka öryggi og tryggja öllum hvar sem er á landinu 48 daga, svíður það sárt að horfa upp á getu- og viljaleysið við að tryggja aflaheimildir í 48 daga út ágúst og að þetta sé í fyrsta skiptið þegar þörf hefur verið til að engu sé bætt við strandveiðipottinn!

Það hefur margsinnis verið bent á leiðir sl. 2 ár hvernig hægt sé að forgangsraða aflaheimildum innan félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins án þess að það komi niður á vísindalegri ráðgjöf Hafró. Bent hefur verið á t.a.m. að aflaheimildir til byggðakvóta og VS-afli í þorski hafi ekki verið fullnýttar og að stór hluti byggðakvóta renni til stórútgerða sem tilgangurinn er ekki með heldur ætti frekar að fara til strandveiða.

Það gera sér kannski ekki allir grein fyrir því hve stór þáttur strandveiðar eru í atvinnu- og menningu minni sjávarbyggðanna sem má ekki glatast og hverfa inn í enn frekari samþjöppun stórútgerðanna. Þau sem stunda strandveiðar eiga ekki að þurfa að koma með betlistaf hverju sinni til stjórnvalda til að réttlæta tilveru sína og biðja um að fá að veiða á handfæri í 48 daga á ári. Nú er skellt í lás og fleiri hundruð manns gerðar atvinnulaus með tilheyrandi afleiðingum fyrir fólkið og sjávarbyggðirnar!

Vísindaleg ráðgjöf er eitt en það er ráðherra hverju sinni hvernig hann vinnur úr henni og hvort hann forgangsraði í þágu smærri útgerða sem hafa ekki þol fyrir mikla ágjöf og hafa lítið í stórútgerðirnar að gera sem komnar eru með stærstan hluta allra veiðiheimilda og lítið bólar á rannsókn stjórnvalda hvort einhverjar séu komnar yfir leyfileg kvótaþök!

Strandveiðar eru umhverfisvænustu veiðar sem til eru og SÞ lögðu í fyrra áherslu á sjálfbærar veiðar með sérstaka áherslu á handfæraveiðar. Strandveiðum var komið á af VG 2009 í kjölfar úrskurðar Mannréttindanefndar SÞ frá 2007 og kominn tími til að tryggja öllum að lágmarki öruggar heimildir fyrir 48 daga! Ég vil ekki trúa öðru en að VG sýni nú viljann í verki og efli strandveiðar og hlusti á ákall strandveiðisjómanna.“

Lilju Rafneyju varð ekki að ósk sinni. Svandís er óhagganleg í málinu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: