- Advertisement -

Lilja eina von Framsóknar

Hver er þá sérstaða Framsóknar? Er hún kannski ekki til?

Sigurður Ingi og Ásmundur Einar.

Ömurleg staða Framsóknarflokksins er sláandi, en skiljanleg. Í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins mælist fylgið rétt yfir sex prósentum. Höfuðandstæðingurinn, Miðflokkurinn, er meira en tvöfalt stærri. Sigurður Ingi Jóhannsson er ekki líklegur til að koma flokknum upp úr feninu þar sem hann situr pikkfastur.

Eina von Framsóknar er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður og menntamálaráðherra. Ætli hún sér að starfa áfram í stjórnmálum og innan Framsóknarflokksins á hún fáa kosti. Formennska í flokknum kemur ein til greina. Lilja má illa við að vera spyrt við Sigurð Inga. Hún verður að taka af skarið.

Helsta ógn Framsóknar?

Sigurður Ingi er jafnvel sagður vilja hætta formennsku. Sömu heimildir segja hann vilja þá að Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra taki við. Ekki Lilja. Sú staða veikir flokkinn og eykur á vanda hans. Lilja er sá ráðherra Framsóknar sem hefur gengið hvað best.

Eigi Framsókn, elsti flokkur landsins, að eiga sér framtíð verður eitthvað að gerast. Sigurður Ingi er þröskuldur sem flokkurinn verður að komast yfir. Sigurður Ingi hefur tapað fyrir Sigmundi Davíð. Það kemur skýrt fram í öllum mælingum.

Framsókn verður að gera breytingar. Ekki má spyrja um tilfinningar. Heldur ískaldar staðreyndir. Flokkurinn verður að sýna með einhverjum hætti að hann eigi erindi. Samstarfsflokkarnir, Sjálfstæðis og Vg, róa á sömu mið, á mið Framsóknar. Svo ekki sé talað um Miðflokkinn. Hver er þá sérstaða Framsóknar? Er svarið að hún sé ekki til?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: