Félagarnir kampakátu, Davíð Oddsson og Björn Bjarnason, munu seint ganga meðalveginn. Nú beina þeir teygjubyssunum að Sólveigu Önnu í Eflingu. Kemur ekki á óvart. Davíð notar Björn í Staksteinum dagsins. Þeir byrja svona:
„Björn Bjarnason leggur út af óeirðunum í Brasilíu og bendir á að þar sé allt „öfgakennt og utan skynsamlegra marka“. Svo nefnir hann að við þurfum „ekki að fara langt til að kynnast leiðtoga sem ýtir undir deilur með öfgum.
Sólveig Anna Jónsdóttir var á sínum tíma dæmd í 100.000 kr. sekt fyrir brot gegn valdstjórninni, almannafriði og allsherjarreglu þegar hún ruddist inn í Alþingishúsið 8. desember 2008. “
Þeir vilja halda þessu til haga. Það er margs annars að minnast frá árinu 2008. Þar koma þeir fóstbræður mikið við sögu, einkum Davíð.
Lesum meira:
„Nú er Sólveig Anna formaður Eflingar stéttarfélags og sakar aðra verkalýðsformenn sem hafa samið til eins árs fyrir félagsmenn sína um að hafa „stolið“ kjarasamningi af Eflingu. Hún skarst þó sjálf úr leik þegar kom til samflotsins svonefnda og samið var við Samtök atvinnulífsins (SA), fyrst 3. desember 2022 undir forystu Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfsgreinasambandsins og verkalýðsfélagsins á Akranesi.“
Þessir gaurar. Sólveig Anna er ákveðin foringi. Sækir hart að hvítflibbunum við Borgartún og í Hádegismóum.
Sólveig Anna fer fyrir félagi þar sem margt af fátækasta fólkinu er. Þau kunna að reikna og sjá að þau sem eru á lægstu launum eiga enga möguleika til eðlilegs lífs. Því verður að breyta og gamlir hrossabrestir breyta engu þar um.
-sme