Óli Björn Kárason skrifar í Mogga dagsins. Þar finnur hann að ríkisrekstri sem er í samkeppni við einkarekstur.
„Nú er svo komið að einstaklingar sem stunda atvinnurekstur eiga það stöðugt á hættu að ríkisfyrirtæki taki ákvörðun um að ryðjast inn á starfssvið þeirra. Ríkið hefur haslað sér völl á sviðum sem engum datt í hug að skynsamlegt væri eða réttlætanleg að setja undir ríkisrekstur; sendlaþjónusta, tækjaleiga, útleiga atvinnuhúsnæðis og myndvers, vöruhýsing, vörudreifing og vöruflutningar, prentþjónusta, undirfataverslun, leikfangaverslun og gotteríssala. Á öðrum mörkuðum blómstrar ríkisreksturinn í samkeppni við einkaaðila sem berjast í bökkum. Það næðir a.m.k. ekki mikið um Ríkisútvarpið á sama tíma og sjálfstæðir fjölmiðlar standa höllum fæti. Og hvernig má annað vera þegar ríkið telur sér ekki skylt að fara að skýrum lagafyrirmælum við rekstur og skipulag opinbers hlutafélags?“
Og svo þetta: „Reynslan af ákvæðum hlutafélagalaga um opinber hlutafélög er vond. Ohf-væðingin er líkt og eitur sem seytlar um æðar atvinnulífsins. Samkeppnisumhverfið er óheilbrigt. Hugmyndir um jafnræði hafa orðið undir. Myndast hefur andrúmsloft þar sem sjálfstæði atvinnurekandinn veit að hvenær sem er getur ríkisfyrirtæki (ekki síst þegar það er skreytt sem opinbert hlutafélag) ruðst inn á samkeppnismarkaðinn. Framtaksmaðurinn á því erfiðara uppdráttar og situr undir stöðugum ógnunum. Líklega skynsamlegra fyrir hann að fá sér vinnu hjá hinu opinbera enda lítið fengið með því að leggja allt sitt og fjölskyldunnar undir í fyrirtækjarekstri.“