Davíð Oddsson ver leiðara dagsins í stöðu peningaþvottastöðvarinnar Ísland.
„Fyrir það fyrsta hefur komið fram að ástæðan fyrir því að Ísland er komið á gráan lista FATF er eingöngu að regluverkið sé ekki í lagi hér á landi,“ skrifar hann.
Davíð grípur til þess ráðs, til að réttlæta stöðu Íslands, að benta á eitthvað enn verra. Ódýrt.
„Vissulega er ámælisvert að reglur skuli ekki hafa verið uppfærðar á Íslandi og engin ástæða til að verja það. Hins vegar er rétt að benda á að í gegnum peningaþvottavélar heimsins fer upphæð, sem nemur allt að fimm prósentum af framleiðslu heimsins. Í þessum stórþvotti er Ísland eins og korktappi í Gullfossi. Engu að síður beinir fyrirbæri, sem í orði kveðnu segist berjast gegn alþjóðlegu peningaþvætti, kröftum sínum að Íslandi þannig að bankar sem jafnvel eru með allt niður um sig í þessum málum geta slegið um sig með því að setja Íslendingum stólinn fyrir dyrnar í viðskiptum. Einhvern tímann hefði þetta verið kallað að kasta grjóti úr glerhúsi.“