Alþingi
„Mér finnst þetta skipta máli og þar sem ég kem nú frá Vestfjörðum þá ríkir þar sérstök nafnahefð og ekki þarf að leita lengi að sérstökum nöfnum á Vestfjörðum,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir Framsókn í þingræðu um mannanöfn.
„Ég man að þegar ég átti barn árið 1992 var mannanafnanefnd eins árs. Hún var sett á stofn 1991. Í kringum mig voru konur að eiga börn og þetta var heljarinnar mál því að vestfirsku nöfnin fóru svo illa í þessa nefnd. Hálfdán var t.d. ekki með séríslenska beygingu. Það mátti ekki skíra Patrek, það varð að vera Patrekur. Ég man eftir því að presturinn kom til mín fyrir skírnina og spurði hvað barnið ætti að heita. Ég sagði honum það og hann andvarpaði: Gott, ég er búinn að standa í svo miklu veseni núna síðustu mánuði. Þetta voru bara íslensk vestfirsk nöfn sem þeim hugnaðist ekki, sem höfðu verið á Vestfjörðum um aldir,“ sagði Halla Signý.
Ég ætla að vitna ögn meira í ræðu Höllu:
„Í skemmtilegri bók, Grunnvíkingabók, um fólk og búskap í Grunnavíkurhreppi, er nafnalisti þar sem finna má nöfn neins og Líkafrón og ein kona hét Freðsvunta. Svuntan fraus á ljósmóðurinni þegar hún fæddist. Afkomendur hennar hafa svo sem ekki borið það nafn.
Evlalía; ég get endalaust talið upp nöfn sem ekki myndu hljóta náð fyrir augum mannanafnanefndar í dag, en svo sér maður einstaka nöfn sem eru bara mjög furðuleg. Amma mín taldi víst að það hefði verið til kona fyrir vestan sem hét 25. Júlíana fimm sinnum Trína, af því að hún var fædd á þeim degi, alltaf kölluð Trína.“
-sme