Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:
„Það var dapurlegt að horfa á Kveik í gærkvöldi þar sem flett var ofan af sjálftöku félags sem hefur um áraraðir tekist að draga hundruð milljóna í vasa eigenda sinna fyrir þjónustu við lífeyrissjóðina. Það skal tekið fram að LIVE og VR eru með sitt eigið skráningarkerfi og því ekki hluti af þessu tiltekna svindli.
En hugsið ykkur að ef eitt fyrirtæki sem starfar svo nálægt sjóðunum og sérfræðingum þeirra kemst upp með svona lagað óáreitt og eftirlitslaust, hvað með allt hitt?
Hvernig er eftirliti með fjárfestingum háttað þegar nýráðin framkvæmdastjóri stéttarfélags fer að gera athugasemdir við háan kostnað og flettir svo ofan af svindli sem hefur viðgengist um áraraðir ofan í hálsmáli sjóðanna?
…verra getur þetta ekki orðið.
Rekstrarkostnaður lífeyrissjóða eru tugir milljarðar á ári hverju og þar starfa á annað hundrað mjög vel launaðra stjórnenda sem bera ábyrgð á þessu máli og yfir 6.000 milljarða eignum sjóðanna. Það er von að maður spyrji hvar fleiri leka og sviksamleg athæfi séu að finna innan lífeyrissjóðanna.
Mín reynsla af þeim spillingarmálum sem komið hafa upp síðustu árin eru að sjóðirnir leggja meira kapp á að þagga niður og fela en að rannsaka og sækja rétt sinn fyrir hönd eigenda sinna. Með öðrum orðum þá vegur orðspor stjórnenda meira en raunverulegir hagsmunir sjóðfélaga.
Þetta eru stór orð en auðvelt er að rökstyðja með spurningu: Hversu oft hafa lífeyrissjóðirnir farið í mál, eða leitað réttar síns, til að sækja bætur ef grunur er um sviksamlegt athæfi gagnvart þeim? Ég held að flestir viti svarið.
Þó er hægt að nefna hrunmálin, alþjóðleg endurskoðendafyrirtæki hrunfyrirtækjanna sem kvittuðu uppá að allt væri í lagi, ólöglegt gjaldmiðlabrask lífeyrissjóðanna fyrir hrun, Bakkavararmálið 2015 þar sem sjóðirnir töpuðu að lágmarki 50 til 60 milljörðum, kísilverin, Lindarvatn og svo mætti lengi lengi telja.
Af nægu er að taka en ekki virðist nokkur áhugi á að gera neitt í einu eða neinu nema það komi uppá yfirborðið með þeim hætti sem Kveikur fjallaði um. Þá taka sjóðirnir fyrst við sér.
Versta form spillingar er ekki glæpurinn sjálfur, heldur að vita af honum og aðhafast ekkert, meðvirknin og þöggunin er frjór jarðvegur spillingar og ábyrgð stjórnenda lífeyrissjóðanna er mikill.
Maður hefði ætlað að hrina afsagna kæmi nú í kjölfarið en ekkert mun raunverulega breytast.
En svona gerast hlutirnir þegar farið er með annara manna fé og eina leiðin til að breyta þessum eitraða kúltúr er að heildarendurskoðun fari fram á starfsemi lífeyrissjóðanna og að sjóðfélagar sjálfir munu skipa í stjórnir þeirra. Slíkt kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir spillingu og sviksemi en aðhaldið yrði margfalt betra og meira, því verra getur þetta ekki orðið.