Lífshættuleg opnun landamæranna
Hefur einhver hugsað út í hvernig viðhorf landsmanna og viðmót verður til erlendra túrista?
Hefur einhver hugsað út í hvernig viðhorf landsmanna og viðmót verður til erlendra túrista?
„Ég rek Húsdýragarðinn Daladýrð í Fnjóskadal,“ skrifar Guðbergur Egill Eyjólfsson, sem óttast mjög hugsanlegar afleiðingar af komu erlendra ferðamanna.
„Það var góður dagur í dag. Fjöldi gesta og tjaldstæðin í Fnjóskadal yfirfull af íslenskum ferðamönnum. Mikil umferð á vegunum og íslenska ferðasumarið komið á fullt. En svo á að opna landamærin á mánudaginn og setja íslenska ferðasumarið í uppnám. Það er mörgum spurningum ósvarað. Allar reglur um nálgun og mannfagnaði eru núna miðaðar við ástandið á Íslandi í dag, ekki á mánudaginn. Verða samt sömu reglur þegar gjörbreytt ástand verður á samsetningu þeirra sem eru á landinu?
Hefur einhver hugsað út í hvernig viðhorf landsmanna og viðmót verður til erlendra túrista? Og það sem verra er hvernig verður viðmót Íslendinga gagnvart erlendum ríkisborgurum sem búsettir eru hérlendis? Allir þeir gestir sem koma til mín og reyndar allir sem ég tala við sem ekki lifa á komu erlendra ferðamanna eru á móti opnuninni. Það er engin gagnrýnin umræða í gangi í fjölmiðlum. Hvers vegna? Ætlum við nú enn einu sinni að fá allt fyrir ekkert?
Núna voru að finnast einstaklingar ný komnir til landsins sem voru smitaðir. Þeir sendu 14 lögreglumenn í sóttkví. Hvað gerist ef sýktur ferðamaður rekur ferðir sínar til baka á tjaldstæðið í Vaglaskógi, húsdýragarðinn hjá mér, tjaldstæðið á Hamri á Akureyri. Verður öllu lokað og allir þeir sem voru á tjaldstæðunum og í húsdýragarðinum að fara í sóttkví?
Það yrðu hundruð sem færu í sóttkví út af kannski einum sýktum einstaklingi. Hvað gerist ef sýktur einstaklingur hefur verið á Sel hóteli við Mývatn. Fer allt starfsfólkið í sóttkví og hótelinu lokað? Hvað verður þá um hina gesti hótelsins? Er einhver búinn að hugsa út í hvernig við bregðumst við? Ég ætla alla vega að setja upp skilti við afleggjarann hjá mér þar sem ég bið alla sem eru ný komnir frá útlöndum og ekki hafa farið í tveggja vikna sóttkví að vinsamlegast ekki að koma í húsdýragarðinn. Svo er þetta einnig háalvarlegt mál persónulega fyrir mig sem og fjölda landsmanna vegna þess að móðir mín sem er sjötug býr hjá mér yfir sumarið og er ómissandi starfsmaður í húsdýragarðinum. Opnunin er lífshættuleg fyrir hana. Hver vill hafa það á samviskunni ef illa fer?“
Skrifin birti Guðbergur Egill á Facebook.