Ragnar Önundarson skrifar:
„Núna er „valdajafnvægi“ tryggt með því að fulltrúar haghafa eru jafn margir frá hvorum. Augljóst gamaldags fyrirkomulag, sem SA og ASÍ ríghalda í.“
Fulltrúar tveggja hópa haghafa (hagsmunaaðila) eiga sæti í stjórnum flestra lífeyrissjóða: Atvinnurekenda og launþega. Lífeyrisþegar eiga ekki fulltrúa. Þetta er ástæðan fyrir því að sumir lífeyrissjóðir hætta sér út í beinar fjárfestingar í atvinnuþróunarverkefnum, sem þeir ættu aldrei að gera. Slíkt þarf að vera í verkahring sérhæfðra stofnana, til áhættudreifingar og faglegrar umfjöllunar, sem lífeyrissjóðir gætu sett lítið brot af sínu fé í. Núna er „valdajafnvægi“ tryggt með því að fulltrúar haghafa eru jafn margir frá hvorum. Augljóst gamaldags fyrirkomulag, sem SA og ASÍ ríghalda í. Fyrsta skrefið út úr þessum ógöngum ætti að vera að kjörinn yrði einn fulltrúi lífeyrisþega (sjóðfélaga) á aðalfundi, sem óháður sé þessum stofnunum. Þessi yrði þá „oddamaður“ í stjórninni. Önnur leið væri að tilnefna tvo sjóðfélaga, annan úr hópi safnandi sjóðfélaga, hinn úr hópi lífeyrisþega.