Ragnar Þór Ingólfsson er í merku viðtali í Mogganum í dag. Þar opnar formaður VR á löngu tímabæra umræðu um lífeyriskerfið. Kerfi sem fjarri er sátt um.
„Það má færa rök fyrir að kerfið sé bæði offjármagnað og spyrja hvort launatengd gjöld og iðgjaldahluti lífeyrissjóðanna séu hugsanlega farin að hafa neikvæð áhrif á lífskjör almennings til lengri tíma. Það er margt sem bendir til að kerfið sé orðið of íþyngjandi fyrir hagkerfið og fyrir lífskjör almennt,“ segir Ragnar Þór.
Og svo má lesa þetta:
„Sé litið á ávöxtunarkröfuna á hagkerfið út frá innlendum eignum lífeyrissjóðanna eru þær á fimmta þúsund milljarðar og hærri en landsframleiðslan. Lífeyrissjóðirnir taka því bróðurpartinn af hagvextinum til sín í kröfu á ávöxtun sjóðakerfisins. Það er meðal annars gert með því að halda uppi vaxtakostnaði almennings af húsnæðislánum og með því að halda uppi álagningu í smásölufyrirtækjum sem lífeyrissjóðirnir eiga. Þetta gerist líka með því að lækka kaupgjaldið. Það er krafa um lægri vinnukostnað og hærri álagningu til að standa undir þessari kröfu. Þetta getur því haft neikvæð áhrif á kaupgjaldskröfuna.“
Ragnar Þór nefnir fleira í þessu fína viðtali:
„Það er fyrst og fremst kominn tími til að endurskoða þetta sjóðsöfnunarkerfi og þetta fyrirkomulag. Það er svo margt sem kallar á slíkar breytingar. Kerfið er orðið íþyngjandi fyrir almenning og félagsmenn okkar og sjóðfélaga.“
Ragnar Þór bendir á hið augljósa.
„Það má til dæmis rekja veikingu krónunnar að undanförnu til þess að lífeyrissjóðirnir eru að flytja fjármagn úr landi. Þeir eru að færa meira af sínum fjárfestingum sínum utan, sem er að mörgu leyti gott. Það þarf hins vegar að fara varlega í sakirnar. Ef þetta skerðir lífskjör með því að rýra kaupmátt fólks með veikingu krónunnar eru sjóðirnir enda farnir að vinna í mótsögn við sjálfa sig,“ sagði Ragnar Þór í viðtali við Moggann.